Það versta sem kona gat gert var að vera þrjósk

„Það er svolítið áhugavert að af þeim sögum sem eru …
„Það er svolítið áhugavert að af þeim sögum sem eru sagðar, af kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi, þá eru um það bil 60% sem eru sagðar af konum,“ segir Dagrún. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Heimilisofbeldi gegn konum kemur víða fyrir í íslenskum þjóðsögum, en þar virðist því yfirleitt stillt svo upp að þær eigi það skilið.

„Í þjóðsögunum virðist sem svo að það versta sem konur gátu gert var að vera mjög þrjóskar,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem hefur á síðustu árum rannsakað birtingarmyndir kynbundins ofbeldis í íslenskum þjóðsögum.

Dagrún lét orðin falla á fyrirlestri á vettvangi félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem heldur nú fyrirlestrarröð sem fjallar um ofbeldi á Íslandi. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Dagrúnar frá 2022 þar sem hún skoðaði birtingarmynd kvenna í þjóðsögum, einkum þeirra sem fóru gegn ríkjandi hugmyndum um kvenleika.

Í rannsókninni kennir ýmissa grasa og má segja að þar fáist nokkur innsýn inn í viðhorf Íslendinga til kvenna og kynbundins ofbeldis á 19. og 20. öld. Einnig má finna ýmsar hliðstæður þeirra viðhorfa, og jafnvel sömu viðhorf, í okkar samtíma.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur.
Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Karlarnir „hafi neyðst“ til að beita konur ofbeldi  

Dagrún tók sem dæmi söguna Þið hafið ekki borið söðulinn eins og eg. Í örstuttu máli segir sagan af eiginmanni sem lúber nýfenga konu sína þar sem hún þótti skapvond. Ofbeldið ber árangur: hún hættir að vera skapvond og verður honum hlýðin. „Og þau hjónin voru hamingjusöm upp frá því,“ er haft upp úr sögunni á Ísmús.

Þessi tiltekna þjóðsaga – sem er varðveitt í safni Torfhildar Þ. Hólm, en safnið er krúnudjásn rannsókna Dagrúnar – er ekki ein sinnar tegundar. Dagrún bendir á að það sé algengt í þjóðsögum að ofbeldi gegn konum sé réttlætt þar sem konurnar þykja „erfiðar“.

„Það er eins og konurnar eigi skilið það ofbeldi sem þær verða fyrir í þessum þjóðsögum, þar sem konunum er lýst eins og þær séu til dæmis ofboðslega þrjóskar, ofboðslega erfiðar eða ofboðslega þrályndar,“ segir Dagrún í samtali við mbl.is.

„Og þess vegna „neyðast“ mennirnir til að grípa til þessara aðgerða, að beita þær ofbeldi til þess að aga þær.“

Þjóðfræðingurinn ber þessar lýsingar saman við þolendaskömm, seinni tíma hugtak sem nú er oft nefnt upp í kynferðisbrotamálum þar sem skömminni er skellt á þolandann, það sem á ensku er nefnt victim blaming.

Í sögunum virðist ofbeldið jafnframt vera aðferð sem virkar; „óstýrilátt“ kvenfólkið tekur á endanum upp „betri siði“ og lætur af þrjósku sinni, segir Dagrún.

Konur segja konum frá

Þjóðsagnasafn Torfhildar Þ. Hólm frá 1962 leikur lykilhlutverk í rannsóknum Dagrúnar Óskar. Safnið er það eina sem er eftir konu og hefur að geyma mun fleiri þjóðsögur af heimilisofbeldi, sem flestar eru sagðar af konum.

Hvers vegna ætli svo sé að fleiri frásagnir af heimilisofbeldi sé að finna í þjóðsagnasafni Torfhildar, frekar en í þjóðsagnasöfnum karla?

Því getur verið erfitt að svara en Dagrún bendir á að konum hafi mögulega þótt þægilegra að segja annarri konu frá slíkum sögum. Auk þess voru þjóðsagnasafnarar oft á tíðum prestar eða menntamenn „sem fólki hefur ekkert þótt þægilegt að segja þessar sögur,“ segir Dagrún.

„Við höfum þar konu sem er að tala við aðra konu. Og við vitum alveg að þegar fólk er að segja sögur þá velur það hvernig sögur það segir,“ segir þjóðfræðingurinn. En svo gæti einnig verið að hinir safnararnir hafi heyrt þessar sögur en einfaldlega ekki metið þær nógu merkilegar til útgáfu.

„Það er svolítið áhugavert að af þeim sögum sem eru sagðar, af kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi, þá eru um það bil 60% sem eru sagðar af konum, 6% sagðar af körlum og 34% sagðar af ónefndum sagnamanni,“ segir hún og bætir við að þessir ónefndu hafi mjög líklega verið konur enda sé það „oft þannig að þeir sem eru nafnlausir í sögunni séu konur“.

Varúð til annarra kvenna

Dagrún segir að sagnir beri alltaf með sér skilaboð um hvernig eigi að haga sér – og hvernig eigi ekki að haga sér.

„Og þá má alveg hugsa sér, af því að þetta eru konur sem segja þessar sögur, að þetta séu varnaðarsögur að einhverju leyti af því að þær bera með sér þessi skilaboð um að þrjóskar konur séu líklegri til að verða fyrir ofbeldi. Þá bera þær með sér varúð gagnvart því,“ segir hún.

Það er þó tvíeggja sverð.

„Á sama tíma viðheldur það þessum hugmyndum um undirskipun kvenna og að það sé sett á þær sjálfar að forðast ofbeldið, en ekki á gerandann að beita ekki ofbeldinu,“ bætir hún við.

Þessar sögur hafi getað gert það að verkum að konur sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi upplifðu sig ekki einar – „leið til að ræða erfið mál, en samt hægt að forða sig frá þeim,“ eins og Dagrún orðar það. 

Undantekningin sem sannar regluna?

Sú saga sem þykir þó einna helst áhugaverð í sagnasafni Torfhildar Hólm nefnist Nakin kona fæst við draugsem segir frá eldri konu sem verndar yngri stúlku frá draugi manns sem hafði fellt hug á stúlkuna.

Þetta er eina þjóðsagan þar sem kona sleppur undan kynbundnu ofbeldi.

Eins og aðrar sögur sem hér hefur verið minnst á er þessi varðveitt í safni Torfhildar, og hefur hún hana eftir Sigríði Jónsdóttur, húsfreyju á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Akureyri sem gerðist svo vesturfari.

„Þetta er eina sagan þar sem hún sleppur, þar sem henni er bjargað frá kynferðisofbeldinu, af eldri og reyndar konu sem kemur þarna að og tekst að bjarga henni,“ bætir hún við.

Þegar kona fær samúð

Einnig eru til þjóðsögur af kynbundnu ofbeldi þar sem samúðin liggur meira með konunum frekar en körlunum. Sem dæmi nefnir Dagrún sögur er kallast Vondi unnustinn og Harka Magnúsar sýslumanns.

En eins og titlar þessara sagna gefa til kynna eru þetta ekkert venjulegir menn. Dagrún bendir einnig á að konurnar í þessum sögum, þolendurnir, séu báðar óléttar „og þá er bannað að beita þær ofbeldi“. Þá skipti máli hver beiti ofbeldinu; feður, eiginmenn og prestar hafi t.d. leyfi til þess á meðan ókunnugir hafi það ekki.

„Það sem er áhugavert, sérstaklega í tengslum við nýjar umræður um kynferðisofbeldi og MeToo-umræðuna [...] þar sem var var vitundarvakning um að það séu líka góðir menn sem geta líka brotið af sér kynferðislega,“ segir Dagrún.

Í þjóðsögunum virðist einmitt ekki máluð sú mynd að hvaða maður sem er geti beitt ofbeldi. Gerendur eru þar yfirleitt utanaðkomandi – jafnvel yfirnáttúrulegir – og má þar nefna útilegumenn, drauga og huldufólk.

„Það eru ekki menn sem búa á bænum, og ekki menn sem búa í samfélaginu, sem við vitum að er klassísk mýta um kynferðisofbeldi – að þetta sé ókunnugur, þegar reyndin er sú að yfirleitt þekkir fólk gerandann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka