„Erum búin að eiga von á þessu gosi ansi lengi“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höldum að sjálfsögðu vöku okkar og fylgjumst grannt með stöðu mála varðandi hugsanlegt eldgos og erum í stöðugu sambandi við Veðurstofuna.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is en líkur á enn einu eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina fara vaxandi með hverjum deginum sem líður.

Dvalið í 40-50 húsum

Úlfar segir að dvalið sé í 40-50 húsum í Grindavík og að um 700 manns séu að störfum í bænum og í Bláa lóninu dags daglega.

Hann segir að varnargarðarnir við Grindavík og Svartsengi séu komnir í fulla hæð.

„Það er ekki verið að vinna mikið í þeim núna en miðað við áætlanir um hraunrennslið eru þeir komnir í fulla hæð. Það eru til taks vinnuvélar ef það þarf að loka gati á Grindavíkurvegi milli varnargarða L1 og L2. Viðbragðið er því til staðar ef á þarf að halda,“ segir hann.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað að fara á hættustig almannavarna þann 30. janúar síðastliðinn þar sem líkur á nýju eldgosi, því áttunda frá því goshrinan þar hófst í desember 2023, hafði aukist.

Ágætlega undirbúnir ef það dregur til tíðinda

„Við erum búin að eiga von á þessu gosi ansi lengi og þess vegna var ákveðið að fara af óvissustigi yfir á hættustig. Vísindamenn tala um að gosið geti brotist út hvenær sem er og menn eru ágætlega undirbúnir ef það dregur til tíðina. Það er mjög jákvætt að varnargarðarnir skuli vera komnir á þann stað sem þeir eru í,“ segir Úlfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert