Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, var sérstakur gestur á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Hann hefur því setið fundi með öllum formönnum flokksins nema þeim fyrsta.
Sjálfstæðismenn greina frá þessu í Facebook-færslu en Halldór, sem er 86 ára, hefur þá setið þingflokksfund með níu af tíu formönnum Sjálfstæðisflokksins.
Hann sat sinn fyrsta árið 1960 þegar Ólafur Thors var formaður, þó ekki sem þingmaður, að því er fram kemur í færslu flokksins. Eini formaðurinn sem hann sat ekki þingflokksfund með var Jón Þorláksson.
Halldór var þingmaður frá 1979 til 2007 og var þar af forseti Alþingis á árunum frá 1999 til 2005. Auk þess var hann landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991–1995 og síðan samgönguráðherra 1995–1999.