„Ég hef ekkert vald til að snúa þessum ákvörðunum“

Funi segist geta gefið álit og haft skoðanir, en hann …
Funi segist geta gefið álit og haft skoðanir, en hann hafi ekki vald til að breyta ákvörðunum. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu segist ekki hafa vald til þess að snúa við ákvörðun um hvar nýtt meðferðarheimili skuli rísa. Hann taki ekki ákvörðun um það hvort heimilið rísi í Garðabæ eða í Mosfellsbæ. Hann geti hins vegar sagt sína skoðun og gefið álit.

Greint var frá því á mbl.is í gær að svo virtist sem tekin hefði verið ákvörðun um það af hálfu Barna- og fjölskyldustofu af meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda, sem rísa átti við Vífilstaðavatn yrði frek­ar reist í Skála­túni í Mos­fells­bæ. Sér­fræðing­ar mennta- og barna­málaráðuneyt­is­ins og fjár­málaráðuneyt­is­ins voru upp­lýst­ir um þá ákvörðun, sem og starfsmaður fram­kvæmda­sýslu rík­is­eigna.

Kom þetta fram í tölvupóstsamskiptum á milli starfsmanna ráðuneyta og stofnana, sem mbl.is fékk afhent frá fjármálaráðuneytinu.

Viljayfirlýsing vegna verkefnisins var undirrituð við Vífilsstaðavatn í Garðabæ í desember 2023.

„Staðfesti sameiginlegan skilning“

Funi Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri meðferðarsviðs Barna- og fjöl­skyldu­stofu, sendi tölvu­póst á sér­fræðing mennta- og barna­málaráðuneyt­is­ins, og starfs­mann hjá fram­kvæmda­sýslu rík­is­eigna þann 14. mars 2024, eða fyr­ir rúm­lega ári síðan, þar sem fram kom að tek­in hefði verið ákvörðun um að bíða ekki leng­ur eft­ir Garðabæ og að stefnt væri á að byggja meðferðar­heim­ilið frek­ar í Mos­fells­bæ. Þá höfðu miklar tafir orðið á málinu vegna deilna um greiðslur byggingarréttargjalda.

Starfsmaður fram­kvæmda­sýsl­unn­ar svaraði og minnt­ist á að full­trúi mennta- og barna­málaráðuneyt­is­ins fengi einnig póst­inn og væri því upp­lýst­ur. „...ég lít svo á að þetta er sam­eig­in­leg ákvörðun MRN og BOFS, þið staðfestið,“ sagði starfsmaður­inn í svari sínu. Vísaði hann þar til mennta- og barna­málaráðuneyt­is­ins og Barna- og fjöl­skyldu­stofu.

Sér­fræðing­ur hjá mennta- og barna­málaráðuneyt­inu svaraði og fór af­rit einnig til sér­fræðings í fjár­málaráðuneyt­inu.

„Staðfesti sam­eig­in­leg­an skiln­ing á breyttri staðsetn­ingu meðferðar­heim­il­is­ins,“ sagði sér­fræðing­ur­inn.

„Ég segi mína skoðun á hlutunum“

Varla er hægt að draga aðra ályktun en svo að þarna sé verið að taka sameiginlega ákvörðun um að færa eigi staðsetningu meðferðarheimilisins í Skálatún í Mosfellsbæ, sem nefnt hefur verið Farsældartún.

Funi vill hins vegar ekki meina það.

„Ég hef ekkert vald til að snúa þessum ákvörðunum. Þetta er sett upp eins og ég hafi eitthvað vald til að segja að þetta eigi að vera þarna eða þarna. Ég er bara embættismaður í vinnunni,“ segir Funi í samtali við mbl.is.

„Ég segi mína skoðun á hlutum þegar mér finnst þeir komnir fram úr hófi, að einhver biðtími sé kominn fram úr hófi. Þá legg ég þetta til í því samhengi. Það er verið að hugsa um deiliskipulag þar og einhverja uppbyggingu, en ég er ekki sá sem stýrir því,“ segir hann jafnframt.

Hann bendir á mennta- og barnamálaráðuneytið standi fyrir byggingu meðferðarheimilisins, ráðuneytið sé verkkaupi, ekki Barna- og fjölskyldustofa. Stofnunin geti hins gefið álit og komið með hugmyndir.

Verður að segja eitthvað

Það hljómar þannig í þessum tölvupóstsamskiptum að það sé sameiginleg ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytisins og Barna- og fjölskyldustofu að færa verkefnið.

„Já, að það sé eðlilegt að skoða það. Þetta er líka hluti af því, ef það hreyfist ekkert, þá verður maður að segja eitthvað.“

Ég er að velta fyrir mér er hvort það hafi farið eitthvað samtal í gang eða sé samtal í gangi við Mosfellsbæ, sem þið eruð hluti af, um að þetta meðferðarheimili gæti risið þarna á Farsældartúni?

„Það hafa átt sér stað samtöl varðandi Farsældartúnið yfir höfuð,“ segir Funi og bendir á deiliskipulag svæðisins í því samhengi.

Samkvæmt skipulagslýsingu fyrir deiliskipulag Farsældartúns eiga að svæðinu að vera byggingar sem hýsa aðila sem veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Einkum er horft til eftirtalinna stofnanna og starfsemi: Barna- og fjölskyldustofu, meðferðarkjarna, vistunarúrræðis, Barnahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, Miðstöðvar menntunnar og skólaþjónustu og starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og félagasamtaka.

Alveg sama hvar heimilið rís, bara ef það rís

En það hefur ekki átt sér stað einhver markviss vinna á þessum tíma að skoða það af einhverri alvöru?

„Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta, þú verður að leita til ráðuneytisins,“ segir Funi.

„Við erum bara að vinna í ákveðnu umboði og það eru ekki við sem erum ráðandi afl í því,“ bætir hann við.

Vert er að geta þess að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, vildi ekki svara spurningum um málið í dag, þegar eftir því var leitað.

En telur þú ákjósanlegra að heimilið rísi frekar í Mosfellsbæ en Garðabæ, eins og staðan er í dag?

„Eins og staðan er núna er mér alveg sama hvar þetta rís ef þetta rís,“ segir Funi og heldur áfram:

„Það hefur enga sérstaka merkingu hvort þetta verði  í Mosfellsbæ eða Garðabæ fyrir mér. Fyrir mér er þetta bara þannig að ef þetta fer áfram og það rís meðferðarheimili, þá er mér alveg sama hvar það er.“

Funi hefur áður sagt að mikil undirbúningsvinna hafi farið fram varðandi skipulag meðferðarheimilisins. Sú vinna mun hins vegar nýtast hvar sem heimilið rís.

„Næsta skref var að gera jarðvegsrannsóknir svo hægt væri að halda áfram með útboðsgögnin. Við vorum komin á þann stað í ferlinu. Alveg sama hvar þetta verður, þá er sú vinna ekki farin í súginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert