„Ef þú vilt ekki deyja, þá verðurðu að læra að lifa“

Joey Syta.
Joey Syta. Ljósmynd/Pétur Kristjánsson

Listamaðurinn Joey Syta, sem eyddi tæpum fimm dögum einn í fjöru í Loðmundarfirði, segist viss um að hann hefði látið lífið ef hann hefði týnst annars staðar en á Íslandi. Hann fer í gegnum upplifunina í samtali við mbl.is.

Syta er frá Rochester í New York og er Íslandsvinur sem hefur komið hingað til lands nokkrum sinnum, fyrst árið 2007. Hann er ekki ókunnugur staðháttum á Seyðisfirði sem hann hefur áður heimsótt og eignast góða vini.

Villtist af leið 

Byrjað var að rekja sögu Syta í gærkvöldi. Eftir að hann lagði af stað í átt að yfirgefnu húsi sem hann hafði séð síðast þegar hann heimsótti Seyðisfjörð villtist Syta.

Áður en hann vissi var hann farinn að klífa brattar hlíðar í Jökli, sem er fyrir ofan Loðmundarfjörð, og kveðst hafa orðið skelkaður og viljað koma sér niður í fjöruna sem hann sá fyrir neðan sig.

Í bröttum klettunum missti hann svo takið og féll aftur fyrir sig, niður í fjöruna, að minnsta kosti þrjá til fjóra metra niður til jarðar, með þeim afleiðingum að hann fékk skell á höfuðið og rotaðist í skamma stund.

Þá fann hann einnig fyrir gífurlegum eymslum bæði í baki og á öxlum og var viss um að hann hefði ökklabrotnað. Hann hafi þó einhvern veginn náð að renna sér á bakinu niður úr hlíðinni og í fjöruna. Þá var enn bjart úti.

Lifði á vatni, grasi og jurtum

Þegar dimma tók áttaði Syta sig á að hann þyrfti náttstað. Síminn náði engu sambandi þar sem hann var staddur í fjörunni á Loðmundarfirði.

Kveðst hann hafa fundið kot, sem hann lýsir sem pínulitlum helli. Hafði hellirinn náttúrulegan vegg sem Syta stækkaði og fyllti í með torfi til að fá meira skjól.

Yfir næstu daga lifði Syta aðeins á vatni, grasi og jurtum.

Hann segist þó aldrei hafa upplifað vonleysi. Hann hafi vitað að hann myndi sjá vini sína og fjölskyldu aftur.

Þá nefnir hann einnig að hann hafi vitað að slysavarnarfélagið Landsbjörg væri til, en hann hafði heyrt um félagið í einni af sínum fyrri heimsóknum til landsins. Hann hafi því verið viss um að um leið og Landsbjörg fengi símtalið, yrði hann fundinn.

Joey Syte ber hlýhug til íslensku þjóðarinnar.
Joey Syte ber hlýhug til íslensku þjóðarinnar. Ljósmynd/Pétur Kristjánsson

„Sama hvað, þá mun ég finna leið“

Syta segir að eftir ákveðinn tíma hafi hann verið kominn með rútínu í fjörunni. Hann hafi vitað hvernig ætti að þurrka fötin sín almennilega og nýtt ferðir sínar.

„Ég færði til steina og bjó til stíga svo það væri auðveldara fyrir mig að ganga um. Ég hugsaði bara með mér: „Ef ég er að fara að vera hérna, þá þarf ég að finna út úr þessu.““

Þá segir hann að það sem hvatti hann til að halda sér á lífi var ekki einungis viljastyrkurinn. Það væri einnig ást hans til fjölskyldu sinnar, vina og fólks almennt.

„Ég sagði við sjálfan mig að það væri ekki séns að ég væri ekki að fara að sjá þetta fólk aftur. Sama hvað, þá mun ég finna leið.

Og ég ákvað að halda kyrru á fjörunni vegna þess að allar míkró-ákvarðanir sem ég hafði tekið sem leiddu mig þangað enduðu á því að vera ekki svo frábærar. Ég ætlaði ekki að fara að taka ákvörðun ef það fylgdi henni ekki 100% öryggi,“ segir Syta.

Bjó til poka úr fötunum sem hann gat vafið sig í á næturnar

Þarna ertu um miðjan mars og íslensku næturnar eru ekki beint hlýjar á þessum tíma árs. Ég get ekki ímyndað mér að næturnar hafi verið auðveldar?

„Þegar ég fór af stað í ferðina þá var ég undirbúinn. Ég hafði að vísu ekki hanska. Ég vildi að ég hefði haft hanska. Hendurnar mínar eru eyðilagðar. Þær eru að gróa en þær voru mjög slæmar um hríð.“

Segist Syta hafa verið í góðum vetrarjakka, hettupeysu, skyrtu, langermabol og klæddur í stuttbuxur innan undir buxurnar sínar.

Nefnir hann einnig hvernig hann tengdi fötin saman á næturnar og bjó þannig til hálfgerðan poka sem hann vafði sig inn í. Hann hafi svo sett hendurnar undir handakrikana svo þær gætu hitnað hraðar eða þá upp við munninn þar sem hann blés volgu lofti á þær.

Verður að læra að lifa

Þá segist hann einnig hafa nýtt ferðir sínar í fjörunni á daginn til að m.a. safna heyi fyrir „rúmið“ sitt í litla hellinum sínum.

„Þannig að ég var allavega með þurrt rúm á nóttunni.“

Jesús.

„Já, en hugsaðu um það. Ef þú vilt ekki deyja, þá verðurðu að læra að lifa.“

Heyrði lágt suð

Segir Syta að það hafi svo verið á síðasta deginum sem hann heyrði lágt suð sem hann kannaðist ekki við.

„Ég sneri mér við, og mundi að þetta er um morguninn. Ég er í næstum því engum fötum, ég er bara í tveimur lögum af fötum á meðan hin eru að þorna. Ég er berfættur og ég heyri þetta lága suð og hugsa með mér að þetta sé eitthvað öðruvísi. Ég sný mér við og þetta er rauður björgunarsveitarbátur. Ég byrja að hoppa og hoppa og öskra eftir hjálp. En hann ferðast inn í fjörðinn og ég sé hann ekki lengur,“ segir Syta og heldur áfram.

„Ég hugsaði með mér að þetta væri stundin.“

Rauk hann því af stað og klæddi sig í sokka, skóna og restina af fötunum og fór eins langt út á steinana í fjörunni og hann gat. Segist hann þar hafa tekið þá ákvörðun að hann myndi ekki fara fet fyrr en báturinn myndi koma til baka.

„Og hann kom til baka.“

Frá björguninni 13. mars.
Frá björguninni 13. mars. Ljósmynd/Landsbjörg

Vinirnir hófu leit á undan öðrum

Um leitina segir Syta vini sína hafa hafið leit á undan lögreglu og björgunarsveitum.

Nefnir hann sérstaklega Björt Sigfinnsdóttur, sem var ein af stofnendum listahátíðarinnar LungA á Seyðisfirði, og kallar hann hana sinn besta vin á Íslandi.

Hann segir Björt hafa skipulagt leit þar sem farið var yfir ýmis svæði og leitað að Syta.

Höfðu þá vinir hans reynt að ná sambandi við hann síðan á mánudag og svo tilkynnt lögreglunni í Reykjavík að hann væri týndur á miðvikudagskvöldinu. Kölluðu þeir eftir því að björgunarsveitir yrðu kallaðar út en lögreglan varð ekki við þeirri beiðni. Vinirnir fóru því sjálfir að leita um nóttina og morguninn.

Þá var hringt á nýjan leik, björgunarsveitir ræstar út og var Syta fundinn um tveimur tímum síðar í fjörunni.

„Lærir af því og heldur áfram“

Aðspurður hvernig honum líði með það að lögreglan hafi ekki hafið leit að honum um leið og tilkynning barst segist Syta enga gremju bera til hennar. Það hafi þó vakið upp forvitni.

Hann segir alla taka ákvarðanir sem oft, eftir á að hyggja, geti reynst vera slæmar.

„Eins og ég. Ég tók ákvörðun og eftir á að hyggja var það ekki góð ákvörðun. Maður tekur það, lærir af því og heldur áfram.“

Meiðslin að gróa hratt

Segir Syta að eftir að honum var bjargað úr fjörunni hafi bataferli tekið við.

„Ég var tekinn til Neskaupstaðar og dvaldi á sjúkrahúsi. Fór til Akureyrar og dvaldi á sjúkrahúsi. Gettu hvaða meiðsli ég er með.“

Hvaða?

„Engin beinbrot, engin lungnabólga, engin lungnavandamál og ég var ekki frostbitinn,“ segir Syta sem nefnir þó að ökklinn hans hafi áður litið betur út, hann hafi tognað illa. Þá séu einnig skurðir á höndum og fótum sem hann segir vera að gróa hratt.

„Það er út af ykkur“

Eins og fyrr segir er Syta mikill Íslandsvinur og kemur það í ljós þegar samtalið fer að líða undir lok að hann ber mikinn hlýhug til íslensku þjóðarinnar.

„Ef þetta myndi gerast fyrir mig einhvers staðar annars staðar í heimunum þá væri ég dáinn.“

Heldurðu það?

„Já. Þetta var ekki bara viljastyrkurinn minn,“ segir Syta og heldur áfram:

„Íslenska náttúran. Fólkið. Landsbjörg. Þetta er ekki sjálfgefið. Aðrir staðir – þeir hafa þetta ekki. Þeir hafa ekki sömu samúð og Íslendingar, allavega ekki sem ég hef séð.“

„Ef þetta hefði gerst einhvers staðar annars staðar þá hefði ég ekki lifað af. Það er út af ykkur,“ segir Syta að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert