Hvorki Birgir Jónsson, settur forstjóri Fangelsismálastofnunar, né Halldór Valur Pálsson forstöðumaður á Litla-Hrauni kannast við að mistök hafi verið viðurkennd í tengslum við heimsókn fyrrum fanga í fangelsið.
Fram kom í máli Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns félags fanga, í gær að fangelsismálayfirvöld hafi viðurkennt að mistök hafi verið gerð þegar Stefáni Blackburn var heimilað að fara í heimsókn á Litla-Hraun með batahópi Tolla Morthens þann 30. nóvember. Í kjölfarið hafi reglur um heimsóknir sjálfboðaliða verið hertar.
Stefán er í gæsluvarðhaldi í tengslum við fjárkúgunar-, frelsissviptingar- og manndrápsmál sem upp kom í síðustu viku. Hann var sakfelldur og dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í desember vegna fíkniefnaaksturs í janúar og febrúar í fyrra. Þá á hann að baki langa sögu afbrota og ofbeldis.
„Ég veit ekki hvað hann er að vísa í (um að mistök hafi verið viðurkennd). En almennt er það þannig að það eru fullt af sjálfboðaliðum sem koma inn í fangelsin. AA-menn, sponsorar, Afstöðufólk, sjálfboðaliðar frá ýmsum aðilum og við reynum að nýta þjónustu þessa fólks hvað best við getum,“ segir Halldór Valur.
Hann segir að þó að ekki sé hverjum sem er hleypt inn í fangelsin og að menn þurfi að samþykkja bakgrunnsskoðun áður en þeir fá heimild til að fara inn.
„En sú bakgrunnsskoðun hefur ekkert forspárgildi inn í framtíðina. Það er alltaf erfitt að finna út úr því hvað gerist í framtíðinni. En við notum allar upplýsingar sem við höfum aðgang að til að meta þetta,“ segir Halldór Valur.
Spurður út í mál Stefáns sem dæmdur var í desember fyrir fíkniefnaakstur ítrekar Halldór Valur að hann geti ekki tjáð sig um stök mál en segir þó að almennt geti margt breyst á stuttum tíma.
„Menn eru oft komnir á annan stað í lífinu þegar þeir fá dóm. Menn eru oft komnir á annan stað þegar mál koma til Landsréttar. Það getur liðið langur tími og það þarf að horfa á hvert mál fyrir sig,“ segir Halldór Valur.
Bendir hann á að ekki hafi komið upp alvarleg mál tengd sjálfboðaliðum í fangelsunum.
Birgir Jónsson segir að hann geti ekki tjáð sig um einstök mál.
„En ég kannast ekki við það sem er vísað er til,“ segir Birgir og bendir á að hann hafi verið stutt í starfi.
„Ég kannast ekki við lausatök í þessum efnum. Ég kannast ekki við annað en að vel hafi verið staðið að málum. En það er alltaf áhætta að hleypa mönnum inn í fangelsin,“ segir Birgir.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga, stendur hins vegar fastur við sinn keip.
„Það voru mistök gerð. Ég stend bara við það sem sagt var í gær um að Fangelsismálastofnun hefði viðurkennt mistök. Þetta mál hefur verið margrætt á vettvangi Fangelsismálastofnunar, Verndar og Afstöðu. Þetta voru klárlega mistök og ég stend við fyrri orð,“ segir Guðmundur Ingi. .
Hann segir að honum hafi verið tjáð að strax hafi verið brugðist við þannig að svona myndi ekki gerast aftur og að um nokkurra mánaða skeið hafi verið viðhöfð hertari vinnubrögð þegar sjálfboðaliðar koma í fangelsin.