Skannar í Klappinu liggja niðri eftir uppfærslu

Klappið liggur niðri.
Klappið liggur niðri. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Skannar í Klappinu, smáforriti Strætó, liggja niðri eins og sakir standa og hafa gert frá því Strætó hóf að ganga í morgun. Að sögn Jóhannesar Rúnarssonar, forstjóra Strætó er uppfærslu á appinu um að kenna. Hann segir þó að farþegar hafi getað notað Strætó í morgun án endurgjalds. 

Skannarnir hafa það hlutverk að taka á móti greiðslum þegar fólk notar Strætó.  

„Það var uppfærsla í nótt og birginn er að laga þá agnúa sem komu upp í uppfærslunni,“ segir Jóhannes. 

Hann segir óljóst hvenær appið muni verða að fullu nothæft að nýju. 

„Þetta átti náttúrlega ekkert að gerast. Kerfið var búið að fara í gegnum gríðarlegar prófanir til að auka hraða í skönnuninni. Það hefur eitthvað klikkað í þessu. Það er erlendur aðili sem er með þetta kerfi og hann er að vinna í þessu á fullu,“ segir Jóhannes. 

Að sögn hans hefur Strætó gengið eftir sem áður. 

„Fólk hefur í sjálfu sér notað appið frítt vegna þessa rekstarvanda í uppfærslunni,“ segir Jóhannes.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar koma fram að Klappið lægi niðri en hið rétta er að skannar sem taka á móti greiðslum hafa legið niðri og vildi Jóhannes árétta það. Unnið er að koma skönnum sem legið hafa niðri í gagnið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert