Eva H. Önnudóttir stjórnmálafræðingur segir það ekki endilega óeðlilegt að mennta- og barnamálaráðherra hafi verið upplýstur um nafn sendanda sem vildi fá fund með forsætisráðherra. Horfa þurfi á það í samhengi við það hvort sendandinn hafi verið meðvitaður um að nafn hans yrði gefið upp um leið og hann sagði að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra, mætti að ósekju sitja fundinn.
Sendandinn var fyrrverandi tengdamóðir manns sem eignaðist barn með Ásthildi Lóu Þórsdóttur þegar hann var á barnsaldri. Óvíst er hvort hún hafi vitað að með því að heimila Ásthildi Lóu að sitja fundinn væri hún um leið að heimila að greina mætti frá nafni hennar.
„Ef ég skil þetta rétt þá fékk mennta- og barnamálaráðherra ekki að vita erindið þegar nafn sendandans var gefið upp. Ef erindið sjálft innihélt viðkvæmar upplýsingar þá er það orðið spurning um viðkvæmar upplýsingar sem gætu varðað við persónuvernd. En það að haft sé samband við barnamálaráðherra um þennan fund, sem hann mögulega verður boðaður á, og sendandinn hafi verið meðvitaður um það, þá þarf það ekki að vera trúnaðarbrestur að nafnið hafi verið gefið upp,“ segir Eva.
Að sögn hennar er lykilatriði í málinu hvort fyrrverandi tengdamóðirin hafi vitað að nafn hennar yrði gefið upp við Ásthildi Lóu.
„Það sem er á gráu svæði og hefur kannski ekki komið skýrt fram er hvort að sú aðgerð forsætisráðuneytisins að gefa nafnið upp sé trúnaðarbrestur. Forsætisráðuneytið virðist telja að í ljósi þess að samþykki hafi legið fyrir um að barnamálaráðherra mætti sitja fundinn, mætti um leið veita barnamálaráðherra nafn sendandans.“
„Svo er annað mál hvort sendandinn hafi verið meðvitaður um það að með því að segja að það væri í lagi að mennta- og barnamálaráðherra myndi sitja fundinn, væri hann jafnframt að samþykkja það að nafnið yrði gefið upp til mennta- og barnamálaráðherra. Þetta skiptir máli. Að viðkomandi sendandi hafi vitað að nafnið yrði gefið upp í stað þess að halda enn þá að það væri trúnaðarmál hver væri að óska eftir fundinum,“ segir Eva.