Fjörið heldur áfram hjá Flokki fólksins í Fjörgyn

Ládeyða einkenndi samfélagsmiðla stjórnmálafólksins framan af líðandi viku en svo færðist líf í leikana um hana miðja, eða allt þar til málefni fráfarandi barna- og menntamálaráðherra gerðu vart við sig og klauf þjóðina í tvennt.

At­ferli íslensks stjórn­mála­fólks á sam­fé­lags­miðlum er alltaf undir smásjá og því gert skil með reglubundnum og skemmtilegum hætti í Spursmálum. Yfirferðina má sjá í meðfylgjandi myndskeiði eða í rituðu máli hér að neðan.

Dóra Björt elskar Strætó

Byrjum á byrjuninni. Dóra Björt hélt stríðinu að einkabílnum áfram í vikunni þar sem hún hvatti fólk til að taka strætó vegna nýrra rauntímaupplýsinga á leiðarkerfinu. Einfaldara verður það ekki að nota Strætó að hennar sögn.

Fagur, fagur fiskur í sjó!

Hanna Katrín lagði fram nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða sem eykur kröfur um gagnsæi í eignarhaldi í sjávarútvegi. Af myndinni að dæma tæki hún sig vel út sem „skipper“.

View this post on Instagram

A post shared by Viðreisn (@vidreisn)

Halla Hrund brosti breitt

Halla Hrund brosti sínu breiðasta þegar hún hafði lokið við sinn fyrsta flutning á þingsályktunartillögu og varðaði orkuöryggi landsmanna. Vel gert hjá Höllu en einhverjir gætu nú orðið frekar óttaslegnir við að sjá þetta bros að næturlagi.

Finndu þrjár villur!

Dagur Eggertsson stærði sig af eigin verkum í borginni og slengdi fram „before and after“ mynd til að sýna fólki það svart á hvítu hvað hann hafi staðið sig vel sem borgarstjóri. Dagur er svo sannarlega hinn vænasti maður en á myndina vantar strá, bragga og pálmatré.

Funduðu með öllu sem hreyfðist á Vestfjörðum

Það ríkir mikill kærleikur í röðum Viðreisnar líkt og meðfylgjandi Instagram-færsla ber skýrt merki um. Þær Þorgerður Katrín, María Rut og Ingileif fóru í einhverja lúxusvinnuferð á Vestfirði í vikunni og funduðu þar með öllu sem hreyfðist. Fólki, köttum og bara öllu. Þar var líka knúsast mjög mikið og í enda ferðar dýfðu þær að sjálfsögðu tásunum í hinn víðfræga Poll.

Jafnalaunavottun = láglaunavottun

Diljá Mist lét vel í sér heyra á þinginu í vikunni og úthúðaði hinni margrómuðu jafnlaunavottun sem allir elska að hata. Kallaði hún jafnlaunavottunina láglaunavottun og það er ekki útaf því að hún er svo lá í loftinu. Það er út af einhverju allt öðru.

Einn, tveir og SÍS

Kristrún og Heiða Björg handsöluðu kærkomna samninga á milli ríkis og sveitarfélaga sem marka mikil tímamót. Að sjálfsögðu hentu skvísurnar í sjálfu af þessu tilefni. Allir að segja SÍS!

Jarðhiti jafnar leikinn segja þau

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum kom víða við í vikunni. Johnny Bravo, eða Jóhann Páll, hann var svo hrifinn af erindi Írisar að honum fannst tilefni til að deila því á grammið sitt. Þau eru sammála Prettyboitjokkó - það vantar smá hita á klúbbinn. Jarðhiti jafnar leikinn segja þau.

Góð heimsókn úr eyjum

Ásthildur Lóa fékk svo góða heimsókn í vikunni. Sko, frá Írisi Róberts, ekki þessum fyrrverandi 15 ára elskhuga eða hvað maður kallar þessa katastrófu. Þar ræddu þær menntamálin af mikilli alúð áður en allt sprakk í loft upp og Ásthildur Lóa sagði af sér.

Alltaf fjör í Fjörgyn

Hvað hérna…. Bingóið sem Flokkur fólksins bauð í mánudaginn, heldur það enn dagskrá eða hvernig er stemmarinn? Bingó bangó bongó í Fjörgyn - sjáumst þar!

Nýjasta þátt af Spursmálum má nálgast í heild sinni í myndbandsspilaranum hér að neðan:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Inga Sæland þegar allt lék í …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Inga Sæland þegar allt lék í lyndi. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert