Ládeyða einkenndi samfélagsmiðla stjórnmálafólksins framan af líðandi viku en svo færðist líf í leikana um hana miðja, eða allt þar til málefni fráfarandi barna- og menntamálaráðherra gerðu vart við sig og klauf þjóðina í tvennt.
Atferli íslensks stjórnmálafólks á samfélagsmiðlum er alltaf undir smásjá og því gert skil með reglubundnum og skemmtilegum hætti í Spursmálum. Yfirferðina má sjá í meðfylgjandi myndskeiði eða í rituðu máli hér að neðan.
Byrjum á byrjuninni. Dóra Björt hélt stríðinu að einkabílnum áfram í vikunni þar sem hún hvatti fólk til að taka strætó vegna nýrra rauntímaupplýsinga á leiðarkerfinu. Einfaldara verður það ekki að nota Strætó að hennar sögn.
Hanna Katrín lagði fram nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða sem eykur kröfur um gagnsæi í eignarhaldi í sjávarútvegi. Af myndinni að dæma tæki hún sig vel út sem „skipper“.
Halla Hrund brosti sínu breiðasta þegar hún hafði lokið við sinn fyrsta flutning á þingsályktunartillögu og varðaði orkuöryggi landsmanna. Vel gert hjá Höllu en einhverjir gætu nú orðið frekar óttaslegnir við að sjá þetta bros að næturlagi.
Dagur Eggertsson stærði sig af eigin verkum í borginni og slengdi fram „before and after“ mynd til að sýna fólki það svart á hvítu hvað hann hafi staðið sig vel sem borgarstjóri. Dagur er svo sannarlega hinn vænasti maður en á myndina vantar strá, bragga og pálmatré.
Það ríkir mikill kærleikur í röðum Viðreisnar líkt og meðfylgjandi Instagram-færsla ber skýrt merki um. Þær Þorgerður Katrín, María Rut og Ingileif fóru í einhverja lúxusvinnuferð á Vestfirði í vikunni og funduðu þar með öllu sem hreyfðist. Fólki, köttum og bara öllu. Þar var líka knúsast mjög mikið og í enda ferðar dýfðu þær að sjálfsögðu tásunum í hinn víðfræga Poll.
Diljá Mist lét vel í sér heyra á þinginu í vikunni og úthúðaði hinni margrómuðu jafnlaunavottun sem allir elska að hata. Kallaði hún jafnlaunavottunina láglaunavottun og það er ekki útaf því að hún er svo lá í loftinu. Það er út af einhverju allt öðru.
Kristrún og Heiða Björg handsöluðu kærkomna samninga á milli ríkis og sveitarfélaga sem marka mikil tímamót. Að sjálfsögðu hentu skvísurnar í sjálfu af þessu tilefni. Allir að segja SÍS!
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum kom víða við í vikunni. Johnny Bravo, eða Jóhann Páll, hann var svo hrifinn af erindi Írisar að honum fannst tilefni til að deila því á grammið sitt. Þau eru sammála Prettyboitjokkó - það vantar smá hita á klúbbinn. Jarðhiti jafnar leikinn segja þau.
Ásthildur Lóa fékk svo góða heimsókn í vikunni. Sko, frá Írisi Róberts, ekki þessum fyrrverandi 15 ára elskhuga eða hvað maður kallar þessa katastrófu. Þar ræddu þær menntamálin af mikilli alúð áður en allt sprakk í loft upp og Ásthildur Lóa sagði af sér.
Hvað hérna…. Bingóið sem Flokkur fólksins bauð í mánudaginn, heldur það enn dagskrá eða hvernig er stemmarinn? Bingó bangó bongó í Fjörgyn - sjáumst þar!
Nýjasta þátt af Spursmálum má nálgast í heild sinni í myndbandsspilaranum hér að neðan: