Hadda átti víkja en skipstjóri Longdawn var fullur

Strandveiðibáturinn Hadda hvolfdi norðvest­ur af Garðskaga í maí eftir árekstur …
Strandveiðibáturinn Hadda hvolfdi norðvest­ur af Garðskaga í maí eftir árekstur við flutningaskipið Longawn. Nú hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa farið yfir málið. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Skipstjóra Höddu bar að víkja þegar árekstur varð við flutningaskipið Longdawn við Garðskaga í maí í fyrra. Aftur á móti átti stýrimaður Longdawn að gera allt til að forðast árekstur en skipstjórinn var ölvaður, jafnvel mjög ölvaður.

Bát­num Höddu hvolfdi 16. maí eft­ir árekst­ur við Longdawn. Skip­stjóri Longdawn gaf stýri­manni skips­ins fyr­ir­mæli um að halda áfram, þrátt fyr­ir að stýrimaður­inn hafi upp­lýst skip­stjór­ann um árekst­ur­inn og að hann teldi sig hafa séð Höddu vera að sökkva.

Og það gerðu þeir. Longdawn sigldi burt án þess að koma skipstjóra Höddu til bjargar.

Skip­stjór­inn var dæmd­ur í 12 mánaða skil­orðsbundið fang­elsi í júlí og var svipt­ur sigl­inga­réttind­um í þrjá mánuði. Stýri­maður­inn var dæmd­ur í 8 mánaða skil­orðsbundið fang­elsi.

Skipstjóri Höddu fylgdist ekki nógu vel með

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru tildrög slyssins rakin. Þar segir að myrkur hafi verið á tíma slyssins, kl. 02.30 þann 16. maí, en þó tekið að bjarma af degi.

Þar segir að skipstjóra Höddu hafi borið að víkja samkvæmt reglum og hafi ekki fylgst nægjanlega vel með siglingu bátsins.

Skipstjóri Höddu hafi átt að sjá ljós Longdawn um 20 mínútum fyrir áreksturinn, enda voru skipin í 6 sjómílna fjarlægð og Longdawn á stjórnborða við Höddu. Samkvæmt reglum eigi langdrægni sigluljósa skipa lengri en 50 metrar að vera 6 sjómílur meðan langdrægni hliðarljósa þurfi að vera 3 sjómílur. 

En áreksturshætta skapaðist 18 mínútum fyrir skellinn. Á skipum yfir 50 metrum er almenna krafan að aftara sigluljósið sjáist 1.000 metra frá sjávarfleti miðað við réttan stafnhalla.

„Það er því möguleiki að skipstjóri Höddu hafi ekki séð nein ljós frá skipinu (kominn inn í óupplýstan geira) þegar hann var nálægt því enda Sómabátur lágt á sjó og stýrishúsið varnar því að hægt sé að horfa upp fyrir sig,“ skrifar nefndin.

Skipstjóra Höddu hafi ekki verið kunnugt um reglur sem gilda um siglingu á aðskildum siglingaleiðum en hafi þó þekkt reglu 15 sem kveður á um að þegar tvö vélskip stefna þannig að leiðir þeirra skerast og hætta er á árekstri, skuli skipið sem hefur hitt á stjórnborða víkja og „skal, ef aðstæður leyfa, forðast að fara fram fyrir hitt skipið“.

Skipstjórinn „ölvaður“ upp í mjög ölvaður

En þrátt fyrir að Longdawn ætti forgang bar skipinu að fara að reglu 17. b, sem segir að þegar skip sem á að halda stefnu og ferð óbreyttri er af einhverjum ástæðum komið svo nærri að ekki verður komist hjá árekstri með þeim einum stjórntökum sem skipið sem á að víkja grípur til „skal skipið sem á að halda stefnu og ferð óbreyttri gera hverjar þær ráðstafanir sem best geta afstýrt árekstri“.

Við rannsókn lögreglu kom fram að skipstjóri Longdawn var undir áhrifum áfengis og fíkniefna þegar áreksturinn varð. Áfengismagn í blóði hans hafi verið frá 1,4 prómíl til 2,9 prómíl.

„Það þýðir að skipstjórinn [...] hafi verið allt frá því að vera ölvaður upp í mjög ölvaður um það leyti sem áreksturinn átti sér stað. Auk þess mældist í honum niðurbrotsefni fíkniefna.“

Ölvun skipstjórans hafi að líkindum truflað dómgreind hans og vakthafandi stýrimaður sem var allsgáður ekki treyst sér til að fara gegn fyrirmælum hans. Stýrimaðurinn taldi engu að síður að hann hefði siglt niður bát en brást ekki við því heldur hélt för áfram að fyrirmælum skipstjóra.

Það er því niðurstaða nefndarinnar að samverkandi þættir hafi valdið árekstrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert