Tvöföldun á veiðigjaldi bitnar fyrst og fremst á landsbyggðinni og fiskvinnslu í landinu og skapar boðuð hækkun hvata til að flytja hráefnið óunnið úr landi. Þar með verður Ísland ekki einungis af verðmætasköpun heldur líka forsendum fyrir áframhaldandi nýsköpun og tækniþróun á þessu sviði.
Þetta sagði Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni að Loga Einarssyni, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
„Fyrirtæki eins og Marel, Keresis og Kapp eiga það sameiginlegt að hafa byggt tilvist sína beint eða óbeint á þekkingu og þörfum fiskvinnslunnar. Þetta eru alþjóðleg hátæknifyrirtæki sem urðu til vegna aðstæðna og fjárfestingar í sjávarútvegi. Samkvæmt tölum hugverkastofu tengjast um 56% gildra einkaleyfa á Íslandi sjávarútvegi. Já, 56%. Mörg þeirra byggja á rannsóknum og þróun innan fiskvinnslu og fela mörg í sér gífurlega verðmætasköpun og framþróun,“ sagði Njáll.
Í fyrirspurn sinni velti Njáll fyrir sér hver áhrifin verða á möguleika Íslands til að vera áfram leiðandi í tækni og hugverkum tengdum sjávarútvegi, ef veiðigjaldið verði hækkað með þessum hætti og fiskvinnsla dragist saman eða hverfi að öllu eða að hluta til úr landi.
„Hvað verður um fyrirtæki sem hugsanlega gæti orðið næsta Marel eða næsta Keresis? Verða þau þá stofnuð í Póllandi eða Litháen, þar sem fiskurinn verður unninn í stað þess að nýta íslenskt hugvit og sköpunarkraft?
Hefur verið gert heildstætt áhrifamat á áhrif þessarar skattahækkunar á nýsköpun, hugverkaiðnað og framtíðartækifæri Íslendinga á þessu sviði, fjórðu útflutningsstoð landsins? Ef ekki, er ráðherrann tilbúinn að sitja yfir því að draumurinn um Ísland sem kísildal nýsköpunar í sjávarútvegi renni okkur svo sviplega úr greipum?“
Í svari sínu við fyrirspurn Njáls sagði Logi eðlilegt að útgerðin greiði gjald sem fari meðal annars í „uppbyggingu á þeim innviðum sem síðustu ríkisstjórnir hafa algerlega vanrækt, vegina sem hv. þingmaður keyrir væntanlega um þegar hann er á títtnefndu norðaustursvæðinu“.
Þakkaði hann Njáli þá fyrir að tala um verðmætasköpunina, hún sé skemmtilegur vinkill á málaflokknum.
„Það er rétt að sjávarútvegurinn hefur staðið sig gríðarlega vel þegar kemur að nýsköpun og aukið verðmætasköpun og verð hvers þorsks margfalt, og rétt hjá hv. þingmanni að það eru mikilvæg fyrirtæki eins og Keresis sem hafa gert jafn vel roðið að verðmætasta hluta þorsksins. En það eru ekki eingöngu fyrirtækin sem hjálpa þessum nýsköpunarfyrirtækjum að verða til og verða stórkostleg. Það er einmitt hið opinbera. Það er meðal annars hlutverk mitt sem ráðherra að búa til, styðja við og ýta undir stuðningskerfi sem gerir þessum fyrirtækjum kleift að stíga sín fyrstu spor.
Af því að hv. þingmaður nefndi Keresis þá fékk það fyrirtæki örlitla peninga úr sjóði sem það gat notað, og fékk meira. Þannig að þetta er samspil markaðarins, einkaframtaksins og hins opinbera sem skapar verðmæti. Það er ekki annar aðilinn sem gerir það og hinn komi ekkert að því.“
Í seinni fyrirspurn sinni sagði Njáll svör ráðherra vekja nokkra undrun, sérstaklega þegar hann hafði orð á lögum um opinber fjármál.
„Það er ekki markaður tekjustofn í fjárlögunum og fjárlagavinnu, fjármálaáætlun annars staðar. Það er bara ekki þannig. Alþingi breytti hérna og setti lög um opinber fjármál í desember 2015 þar sem þessu var hætt, frá þingheimi sé þetta algerlega ljóst. Þessi málflutningur er bara rangur, rangt upp settur.“
Sneri hann sér aftur að fyrirspurnarefninu og sagði ríkisstjórnina vera að tvöfalda skatta á heila atvinnugrein með fyrirsjáanlegum áhrifum á arðsemi fiskvinnslu.
„En ráðherrann er hér að fría sig allri ábyrgð á þeim afleiðingum sem það mun hafa í för með sér. Þegar ríkið skapar meðvitað skattaumhverfi sem dregur úr samkeppnishæfni og ýtir undir útflutning hráefnis þá verður ekki annað séð en að ríkið beri einnig ábyrgð á þeim afleiðingum. Það er ekki hægt að hækka skatta og þvo sér síðan um hendur.
Ef nýsköpunarumhverfi veikist, ef færri hugmyndir fá rými til að verða að veruleika vegna þess að fiskurinn er unninn annars staðar. Hver ber þá ábyrgð? Telur ráðherra virkilega að markmið um verðmætasköpun, nýsköpun og hugverkavernd náist með því að veikja grunninn sem þetta byggir á?“
Í seinna svari sínu við fyrirspurn Njáls bað Logi forseta Alþingis að sýna Njáli mildi, augljóst væri að hann hefði tekið upp vitlaust blað og notað fyrri hlutann af ræðunni til þess að lesa það upp. „Við vorum ekkert að ræða opinber fjármál hérna,“ sagði Logi.
„Fyrst skulum við hafa það á hreinu að við erum að tala um gjöld á grein fyrir afnot af þjóðareign, takmarkaðri þjóðareign. Í öðru lagi er ég ekki að fría mig ábyrgð. Ég hef þegar greitt atkvæði þess efnis að málið fari út úr ríkisstjórn og inn til þingflokka og inn til þingsins og mun greiða atkvæði með þessu frumvarpi þegar það kemur til afgreiðslu.
Varðandi nýsköpunarumhverfið, þá bara endurtek ég það sem ég sagði, að það er ekki svona einfalt að það hrynji við það að fyrirtæki borgi eðlilegt gjald fyrir afnot sín af auðlindinni og ég á nú reyndar eftir að sjá það að útgerðir gefi frá sér þessar aflaheimildir og hætti að veiða. Við í menningar- og nýsköpunarráðuneytinu, við munum standa vörð um styrkjakerfi og stuðningskerfi nýsköpunar hér eftir sem hingað til.“