„Mjög sátt og í takti við það sem við reiknuðum með“

Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Karítas

„Við erum mjög sátt og þessi mæling er alveg í takti við það sem við reiknuðum með,“ segir Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um nýjustu verðbólgumælingu.

Ársverðbólgan mælist nú 3,8% og hefur hún ekki verið lægri síðan í desembermánuði 2020 en þá mældist hún 3,6%.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að verðbólgan haldi áfram að lækka segir hann:

„Við eigum eftir að endurreikna okkar spá út frá þessum tölum hvað næsta mæling muni segja okkur en við sjáum fram á að það sé ákveðin hjöðnun á verðbólgunni og verði alveg fram á mitt þetta ár. Þetta er sá ávinningur sem við erum að uppskera eftir samningana sem við gerðum á síðasta ári,“ segir hann.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði fyrr í þessum mánuði stýrivexti um 0,25 prósentur og eru meginvextir bankans 7,75%. Finnbjörn gagnrýndi þá ákvörðun og taldi vera innistæðu fyrir meiri lækkun.

Vill sjá myndarlega lækkun stýrivaxta

„Raunvextirnir eru sögulega háir en ég á ekki von á öðru en að Seðlabankinn komi næst með myndarlega lækkun vaxta. Það eru allar forsendur til þess og ekki er hægt að taka endalaust tillit til þess að það sé einhver ógn í vændum eins og Seðlabankinn hefur stillt hlutunum upp,“ segir Finnbjörn, en áður en peningastefnunefnd Seðlabankans tekur næstu ákvörðun um stýrivexti kemur ný verðbólgumæling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert