Þjálfun á dýnum og vopnuð í hermi

Lögreglunemar munda lasertengdar Glock-skammbyssur í hermi menntasetursins.
Lögreglunemar munda lasertengdar Glock-skammbyssur í hermi menntasetursins. mbl.is/Karítas

„Til dæmis getur lögfræðingur, sem er að kenna sakamálaréttarfar, komið og verið viðstaddur leit í bifreið eða eitthvað álíka, þannig fáum við svona fleiri vinkla inn í.“

Þannig lýsir Leifur Gauti Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá mennta- og starfsþróunarsetri ríkislögreglustjóra, meðal annars þeirri samþættingu bóknáms og verknáms sem áhersla er lögð á í lögreglunámi á Íslandi.

Leifur Gauti fer yfir öryggismálin áður en stigið er inn …
Leifur Gauti fer yfir öryggismálin áður en stigið er inn í herminn. mbl.is/Karítas

95 lögreglunemar verða teknir inn í haust en tæplega áratugur er síðan lögreglunám var fært á háskólastig. Háskólinn á Akureyri sér um bóknámshlutann og þangað greiða lögreglunemar skólagjöld. Verknámshlutinn fer fram í Reykjavík hjá mennta- og starfsþróunarsetrinu.

Blaðamaður og ljósmyndari vörðu hluta úr degi með lögreglunemum og skyggndust inn í þjálfun þeirra.

Lögreglunemar kljást á valdbeitingaræfingu.
Lögreglunemar kljást á valdbeitingaræfingu. mbl.is/Karítas

Laser-tengdar Glock-byssur

Það er þriðjudagsmorgun og fram fer æfing á vettvangi umferðarslyss þar sem lögreglunemar eru látnir rissa upp vettvang og skila svokallaðri ljósmyndaskýrslu.

Þeir grandskoða vettvanginn og mynda hann í bak og fyrir. Þeir ræða við vitni og reyna að átta sig á aðstæðunum og atburðarásinni. Vettvangurinn er þá mældur með sérstöku mælihjóli.

Þegar nemunum þykir þeir vera búnir að kanna vettvanginn nægilega vel og vinna alla vettvangsvinnuna er kominn tími til að færa sig inn í hús þar sem teikningin er kláruð.

Lögreglunemar vinna raunhæft verkefni á vettvangi umferðarslyss.
Lögreglunemar vinna raunhæft verkefni á vettvangi umferðarslyss. mbl.is/Karítas
Leifur sýnir blaðamanni svokallaða ljósmyndaskýrslu sem unnin er eftir vettvangi.
Leifur sýnir blaðamanni svokallaða ljósmyndaskýrslu sem unnin er eftir vettvangi. mbl.is/Karítas

Menntasetrið býr yfir svokölluðum valdbeitingarhermi sem notaður er til að setja nemana í miskrefjandi aðstæður, þar sem þeir eru annaðhvort látnir beita vopni eða til dæmis tala við æstan einstakling.

„Ef skipanir eru skýrar er einstaklingur látinn hlýða. Stjórnandinn getur stýrt því hvað gerist en stundum þarf að beita piparúða og kylfu,“ segir Leifur.

Í herminum eru einnig skotbrautir til þjálfunar í meðhöndlun skotvopna í framhaldi af grunnþjálfun. Notaðar eru Glock-skammbyssur sem búið er að óvirkja og tengja við laser sem hermirinn skynjar. Þrýstihylki eru þá notuð til að líkja eftir slættinum í byssunni.

Leifur sýnir blaðamanni hvernig Glock-skammbyssunni hefur verið breytt.
Leifur sýnir blaðamanni hvernig Glock-skammbyssunni hefur verið breytt. mbl.is/Karítas
„Takið byssuna úr slíðri. Miðið. Skjótið!“
„Takið byssuna úr slíðri. Miðið. Skjótið!“ mbl.is/Karítas

Aðeins að skila til baka

Leifur Gauti hefur verið í lögreglunni frá árinu 1998 þegar hann hóf störf sem afleysingamaður en fór svo í lögregluskólann ári síðar.

Hann hefur unnið ýmis störf innan lögreglunnar og meðal annars gegnt stöðu rannsóknarlögreglumanns.

Leifur hefur starfað hjá mennta- og starfsþróunarsetri í tæp þrjú ár. En af hverju er hann í löggunni?

„Þetta er bara gaman. Maður vill stuðla að því að gera samfélagið aðeins betra,“ segir hann. Leifur játar því að það að starfa við að fræða og miðla af reynslu sinni sé um margt ólíkt því að vera virkur lögreglumaður úti í samfélaginu en hann segir það gefandi.

„Maður er aðeins að skila til baka því sem maður hefur lært í gegnum tíðina.“

Leifur fer yfir nokkur atriði áður en lögreglunemarnir halda út …
Leifur fer yfir nokkur atriði áður en lögreglunemarnir halda út á tilbúinn vettvang umferðarslyss. mbl.is/Karítas

Aldrei fleiri teknir inn

Þegar hann hóf störf hjá menntasetrinu var verið að fjölga innteknum lögreglunemum úr 40 í 80 á hausti en nú hefur verið ákveðið að fjölga þeim í 95. Segir Leifur aldrei hafi verið fleiri lögreglunemar teknir inn í einu.

Sex lögreglufulltrúar kenna í grunnnáminu auk annarra kennara sem kenna í bóknáminu fyrir norðan. Forstöðumaður er Ólafur Örn Bragason og aðstoðaryfirlögregluþjónn er Guðmundur Ásgeirsson.

Bóknámið er í fjarnámi og starfsnámið fer fram hjá menntasetrinu í fjórar vikur á önn. Eina viku á hverri önn er staðnámslota á Akureyri og þá fer Leifur norður með nemunum.

„Okkur er umhugað um að nemendur sjái tengingu á milli þess bóklega og verklega. Stundum koma kennarar frá HA og taka þátt í verklegum æfingum.

Handtökin eru sannfærandi.
Handtökin eru sannfærandi. mbl.is/Karítas
Lögreglumenn geta lent í alls konar aðstæðum. Hér er einn …
Lögreglumenn geta lent í alls konar aðstæðum. Hér er einn vopnaður og annar með skjöld. Fleiri standa tilbúnir hjá og einbeitingin leynir sér ekki. mbl.is/Karítas

Heil fræði á bak við aksturinn

Undir hádegi fá lögreglunemar þjálfun í valdbeitingu í íþróttasal. Þar eru réttu tökin æfð bæði með eða án kylfu og nemarnir þjálfaðir í að verjast atlögu.

Kærkomin útrás og uppbrot á deginum en meðal þess sem farið var í um morguninn var kennsla í skýrslugerð og á miðlægt upplýsingakerfi lögreglu, LÖKE.

Kennsla á LÖKE, miðlægt upplýsingakerfi lögreglu.
Kennsla á LÖKE, miðlægt upplýsingakerfi lögreglu. mbl.is/Karítas

Spurður um fleira sem lögreglunemar læra í starfsnáminu nefnir Leifur sérstaklega akstur með forgangi, sem hann segir að sé heil fræði á bak við. Þá minnst hann á nokkuð sem kallast „iPREP“, sem hann segir að sé í raun streitustjórnun.

„Þú getur ímyndað þér ef þú ert búinn að keyra forgangsakstur langa vegalengd og kemur á staðinn þá ertu kominn kannski svolítið á „rauðan“. Bara með því að taka djúpt andann og aðeins að róa sig þá ertu betur í stakk búinn til að takast á við verkefnið.

Við erum t.d. með æfingu þar sem við tengjum púlsmæli við sérstakt forrit og förum með nemana í gegnum æfingu þar sem þeir sjá hvernig púlsinn rýkur upp þegar þeir koma inn í einhverjar aðstæður. Svo taka þeir smá „iPREP“ og fara aftur inn í aðstæðurnar betur í stakk búin til að takast á við verkefnið.“

Þá segir Leifur að kennt sé „de-esculation“ eða hvernig á að róa mótaðilann og þá fái lögreglunemar þjálfun í samskiptum.

„Fyrsta skrefið í valdbeitingu er að tala við fólk. Starfið snýst svo mikið um samskipti.“

Stundaskráin er nokkuð fjölbreytt.
Stundaskráin er nokkuð fjölbreytt. mbl.is/Karítas

Þarf fjölbreyttan hóp til að mynda sterkt lögreglulið

Leifur er spurður út í þá auknu hörku sem birst hefur í samfélaginu og undirheimum og lögreglumenn mæta á degi hverjum. Í því sambandi er hann spurður hvort lögreglunemar hafi áhyggjur af þróuninni og almennt öllu því erfiða sem lögreglumenn mæta í sínum störfum.

„Við byggjum upp á félagastuðning í lögreglunni og svo er það þannig að öllu starfsfólki lögreglu býðst ákveðinn fjöldi sálfræðitíma á ári. Við brýnum fyrir nemunum að nýta sér það.

Það hefur orðið algjör vitundarvakning í samfélaginu og það er ekkert feimnismál lengur að menn þurfi að fara til sálfræðings,“ segir Leifur.

Leifur segir nemunum til á tilbúnum vettvangi umferðarslyss.
Leifur segir nemunum til á tilbúnum vettvangi umferðarslyss. mbl.is/Karítas

Þarf ekki sérstaka tegund fólks til að vilja vinna starf lögreglumanns?

„Það er alls konar fólk sem velst inn í lögregluna,“ segir Leifur og segir hann fjölbreyttan hóp þurfa til að mynda sterkt lögreglulið og lögregludeildir.

„Þannig þrífst samfélagið best, að við séum öll aðeins öðruvísi og með mismunandi áhugasvið.“

Leifur segir megnið af lögreglunemum vera milli tvítugs og þrítugs. Eitt sinn segir hann að hafi verið aldurstakmörk en þau séu ekki nú orðið.

„Fólk þarf bara að standast ákveðnar akademískar kröfur og þrekkröfur. Það þarf að undirgangast bakgrunnsskoðun og læknisskoðun sem og inntökuviðtal.

Vanalega hefur fólk þurft að vera orðið tvítugt til að komast inn í lögregluna en núna klárar fólk framhaldsskóla 19 ára. Því var lögunum breytt og við tökum fólk inn ári fyrr.“

Lögreglunemarnir fylgjast vel með því sem Leifur leggur fyrir þá.
Lögreglunemarnir fylgjast vel með því sem Leifur leggur fyrir þá. mbl.is/Karítas

Alltaf einhverjir sem ná ekki

Er þetta erfitt nám? Komast allir í gegn?

„Það eru alltaf einhverjir sem ná ekki. Það eru gerðar ákveðnar þrekkröfur og fólk verður að halda sér við. Svo gengur fólki mismunandi í akademíska náminu líka.

Námi hefur seinkað hjá einhverjum sem lenda í einhverjum hindrunum og svo eru alltaf einhverjir sem bakka út þegar þeir sjá að námið eigi ekki við sig.“

Hvað kostar að fara í lögreglunám? Er það dýrt?

„Það kostar ekkert meira en í annað nám á vegum ríkisins. Þú borgar þín gjöld í HA fyrir önnina og síðan er gert ráð fyrir kostnaðinum einhvers staðar en menntasetrið er á fjárlögum undir ríkislögreglustjóra,“ segir Leifur.

Segist hann að skilnaði vona að við höfum fengið góða innsýn í lögreglunámið og séð hvað er gaman að læra að vera lögreglumaður og bendir blaðamanni og ljósmyndara á að umsóknarfrestur renni út um mánaðamótin.

Lögreglunemarnir grandskoða vettvanginn og mynda hann í bak og fyrir. …
Lögreglunemarnir grandskoða vettvanginn og mynda hann í bak og fyrir. Þeir ræða við vitni og reyna að átta sig á aðstæðunum og atburðarásinni. Vettvangurinn er þá mældur með sérstöku mælihjóli. Samsett mynd/mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert