Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, birti hjartnæma færslu á Facebook um móður sína, Katrínu Arason sem lést í morgun 98 ára að aldri.
Hún minnist móður sinnar með hlýju.
„Í morgunsárið kvaddi mamma og hélt til fundar við pabba og Kaju. Ég veit að það verða langþráðir endurfundir og ekki verður leiðinlegt á þeim bænum. Svo munu þau fylgjast vel með öllu sínu fólki. Og skála kannski i koníaki.
Við Kaja ræddum það gjarnan hversu lánsamar við vorum með foreldra. Ástrík, umvefjandi, hvetjandi. Voru ófeimin alla tíð við að segja að þau elskuðu okkur.“
„Mamma tók utan um okkur öll. Með mestu seigluna og styrkinn þegar á þurfti að halda. Var okkar stoð og stytta. Sagði okkur alltaf að halda áfram. Vera sjálfstæðar. Sýndi umburðarlyndi og hló að bullinu í okkur. Svo var það þessi endalausa hlýja, eiginlega áþreifanleg ást. Og það sem hún var stolt af barnabörnunum sínum og öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur,“ segir meðal annars í færslunni
Faðir Þorgerðar Katrínar, Gunnar Eyjólfsson leikari, lést árið 2016 níræður að aldri. Þá lést systir hennar Kaja, eða Karitas H. Gunnarsdóttir, árið 2022 62 ára að aldri.