„Skipulögð glæpastarfsemi spyr ekki um landamæri“

Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar uppgötvuðu nýverið stórsendingu af fölsuðum …
Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar uppgötvuðu nýverið stórsendingu af fölsuðum Oxycontin-töflum sem innihéldu hið lífshættulega efni nitazene í stað oxýkódons sem er hefðbundið innihaldsefni í Oxycontin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum mjög ánægð með faglega og skilvirka vinnu í krefjandi aðstæðum,“ segir Ingvi Steinn Jóhannsson, nýkjörinn formaður Tollvarðafélags Íslands og aðalvarðstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, við mbl.is um nýlegt mál sem snerist um innflutning 20.000 falsaðra Oxycontin-taflna sem ekki reyndust innihalda oxýkódon heldur hið öfluga og lífshættulega efni nitazene.

Sendi Tollvarðafélagið frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fjallað var um haldlagningu falslyfjanna og áhersla lögð á mikilvægi starfa tollvarða á landamærum. „Tollverðir gegna lykilhlutverki í að tryggja öryggi samfélagsins með því að koma í veg fyrir að hættuleg efni berist inn í landið,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Undir þetta tekur formaðurinn nýi heils hugar. „Á það ber að líta að farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli var rúmar þrjár milljónir árið 2013, en 8,5 milljónir árið 2024 sem er gríðarleg fjölgun á meðan fjöldi tollvarða hefur haldist nánast sá sami síðan þá og jafnvel lengur,“ segir Ingvi Steinn og bætir því við að tollverðir vinni gríðarlega krefjandi starf sem útverðir Íslands við erfiðar aðstæður sem meðal annars spretti af margbreytileika verkefna við tollgæslu.

Sögulegar loftaplötur í aðstöðunni

„Skipulögð glæpastarfsemi spyr ekki um landamæri og er fjölbreytileg og síbreytileg. Það sem gerist annars staðar gerist líka hérna, með tiltölulega skömmum fyrirvara,“ segir Ingvi Steinn og bendir á þá umfangsmiklu greiningarvi,nnu sem daglega sé unnin á stærsta flugvelli landsins.

Aðspurður segir Ingvi Steinn íslensku tollgæsluna eiga gott samstarf við tollyfirvöld á meginlandi Evrópu sem séu ósínk á fræðslu og upplýsingagjöf sín á milli. „Við reynum að auka þekkingu tollvarða eftir föngum þar sem breytingarnar eru sífelldar í starfsgreininni,“ segir Ingvi Steinn og kveður mönnunarmál tollgæslu og ekki síst hlutfall kvenna innan stéttarinnar hafa verið betri en nú er.

Varla er íslenskrar tollgæslu svo getið í fjölmiðlum að ekki sé tæpt á aðstöðumálum hennar. Eðlis starfsins vegna fer stór hluti þess fram á vettvangi farm- eða farþegaflutninga til og frá landinu og segir Ingvi Steinn aðstöðu tollvarða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar komna til ára sinna og nefnir þar athyglisverða staðreynd í sögulegu tilliti.

„Við erum á eina staðnum í byggingunni þar sem upprunalegu loftaplöturnar eru enn, þessar vínrauðu trefjaplötur sem eru auðvitað söguleg verðmæti sem mætti gera safn úr,“ segir hann og kveður í framhaldinu tollgæsluna á flugvellinum hafa mætt hvort tveggja skilningsleysi og skorti á samstarfi frá opinbera hlutafélaginu Isavia sem rekur flugstöðina.

Skilvirk, hröð og áreiðanleg

„Aðstöðumál eru mjög mikilvæg ef við ætlum að halda uppi öflugu eftirliti á landamærum, tollgæslan á vellinum er á sólarhringsvöktum en þar er hefðbundnum verkefnum á borð við tollafgreiðslu í tengslum við inn- og útflutning einnig sinnt,“ segir Ingvi Steinn og á þar við verkefni sem í eðli sínu eru ólík eftirliti með fíkniefnainnflutningi og öðru smygli, svo sem Oxycontin-töflunum áðurnefndu sem reyndust smyglaðar og stórháskalegar.

Spurður út í framtíð og gildi tollgæslu á Íslandi velkist Ingvi Steinn Jóhannsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og aðalvarðstjóri á Keflavíkurflugvelli, ekki í vafa: „Skilvirk, hröð og áreiðanleg tollgæsla sem í fyrsta lagi verndar samfélagið fyrir ákveðnum hættum og kemur samtímis því heiðarlegum farþegum heim til sín á skilvirkan hátt.“

Formaður Tollvarðafélags Íslands segir skipulagða glæpastarfsemi ekki spyrja um landamæri …
Formaður Tollvarðafélags Íslands segir skipulagða glæpastarfsemi ekki spyrja um landamæri og það sem gerist utan íslenskra landsteina gjarnan finna sér hliðstæður hér á landi með skömmum fyrirvara. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert