Lottópottur helgarinnar er sögulega hár og raunar munar heilum 21 milljón krónum á áætlaðri vinningsupphæð nú og þeim potti sem áður átti metið.
Búist er við því að potturinn verði 160 milljónir króna.
Potturinn er sjöfaldur og þrátt fyrir að hann hafi þrisvar orðið áttfaldur að sögn Halldóru Maríu Einarsdóttur, markaðsstjóra Íslenskrar getspár, þá er hann engu að síður talsvert hærri núna.
„Þetta verða 160 milljónir. Hver er ekki tilbúinn að taka á móti því?“ segir Halldóra. Fyrra metið var 139 milljónir króna en í síðustu viku var hæsti vinningur 112 milljónir króna.
Vinningarnir eru skattfrjálsir og í síðasta útdrætti fengu tæplega 14 þúsund spilarar vinning að sögn Halldóru.
Sá stærsti gekk hins vegar ekki út.
Hjá dómsmálaráðuneytinu liggur fyrir reglugerðarbreyting sem snýr að því að innan skamms mun tölum í lottóinu fjölga um þrjár. Tillaga að breytingunni kemur frá Íslenskri getspá.
Til áréttingar verða tölurnar þó áfram 42 í næsta útdrætti. Eftir breytingarnar verða tölurnar í pottinum 45 talsins en ekki er komin endanleg tímasetning á það hvenær svo mun verða.
„Þátttakan og íbúafjöldinn er orðinn svo mikill að leikurinn er orðinn mettur og vinningurinn gengur mjög oft út. Þá náum við ekki að halda spennunni sem fylgir því að hafa stærri potta,“ segir Halldóra.
En nú er vinningurinn orðinn sjöfaldur.
„Já, þetta hittir akkúrat svona á núna. Þetta er breyting sem tekur margra mánaða undirbúning. Það að potturinn haldist svona lengi inni núna er tilfallandi. Potturinn var hins vegar farinn að ganga mun oftar út.“