„Við vildum hætta áður en við yrðum bornir út,“ segir Sigfús Guðfinnsson bakarameistari en hann stóð sína seinustu vakt í Brauðhúsinu í Grímsbæ í vikunni ásamt Guðmundi bróður sínum. Þar með lýkur meira en hálfrar aldar sögu en faðir þeirra, Guðfinnur Sigfússon, stofnaði bakari á staðnum árið 1973.
En fastagestir í bakaríinu þurfa ekki að örvænta; nýr rekstraraðili tekur nú við, Hygge Coffee & Micro Bakery. Axel Þorsteinsson, sem á Hygge ásamt Karli Viggó Vigfússyni, lofar að virða arfleifð bræðranna og halda merki þeirra hátt á lofti, en Brauðhúsið sérhæfir sig í bakstri úr hráefnum sem eru lífrænt vottuð.
Auk þess að baka fyrir Hygge verður Brauðhúsið rekið áfram á fullu gasi – raunar bætt í frekar en hitt. Undanfarin ár hefur bakaríið aðeins verið opið á virkum dögum en nú bætast helgarnar við. Hygge er líka opið alla daga. „Auðvitað koma alltaf einhverjar nýjar áherslur með nýju fólki en í grunninn verður hér allt óbreytt og áfram byggt á kunnáttu og reynslu þeirra bræðra. Brauðhúsið verður áfram þjóðlegt bakarí fyrir fastakúnna og nágrennið en Hygge er meira á alþjóðlegu nótunum. Ég held að þetta geti farið vel saman og stutt dyggilega hvort við annað,“ segir Axel.
Bræðurnir segja Brauðhúsið nú eiga meiri möguleika að ná til fleira fólks, en sjálfir hafa þeir ekki lagt mikið upp úr markaðssetningu. „Við bræður erum ekki miklir markaðsmenn, höfum til dæmis aldrei keypt auglýsingu,“ upplýsir Sigfús. Bræðurnir hafa steinmalað kornið í eigin myllu, þeirri einu sinnar gerðar á landinu, og verður því verki haldið áfram í nafni þjóðaröryggis, að sögn Axels. Auk þess verður farið fram á að bein lína verði opin til bræðranna, þurfi hann á góðum ráðum að halda. „Við þurfum að fara varlega hér, þetta er rótgróið fyrirtæki.“
Bræðurnir eru alsælir með viðskiptin. Þegar þeir fóru að huga að því að rifa seglin gátu þeir ekki útilokað þann möguleika að loka Brauðhúsinu fyrir fullt og fast. Betri kostur væri eigi að síður að finna einhvern sem væri til í að taka við rekstrinum á grundvelli ástríðu, metnaðar og alúðar. Þann mann fundu þeir í Axel. „Það er mikil gæfa að hafa komið þessu yfir í aðrar hendur,“ segir Sigfús og Guðmundur bætir við: „Ísland hefði orðið fátækara hefðum við þurft að loka.“
Nánar er rætt við bræðurna og Axel arftaka þeirra í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.