„ESB hefur veitt okkur tryggingu um að við verðum að fullu upplýst, tökum þátt í samtölum og það mun ekkert koma aftan að okkur. Það var mjög skýrt á þessum fundum að þau voru mjög meðvituð um mikilvægi þess að passa upp á innri markaðinn,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
Hún er stödd í Brussel, fyrst og fremst til að koma á góðu sambandi nýrrar ríkisstjórnar við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Antonio Costa, forseta leiðtogaráðsins.
„Við höfum átt góð samskipti við þessa einstaklinga og við Evrópusambandið, í gegnum EES-samninginn og EFTA, en þessi persónulegu sambönd skipta auðvitað máli og þessi fundur gat ekki komið á betri tíma, þó að aðstæður séu ekki með besta móti.
Staðan í viðskiptahagkerfinu og þessar breytingar í alþjóðamálum hafa auðvitað sett sinn svip á þessa fundi sem ég hef átt, og forsætisráðherra Noregs átti líka hérna fyrr í vikunni. Við töluðum um tollamálin, áhrif þeirra á Ísland og mögulegar aðgerðir Evrópusambandsins,“ segir forsætisráðherra.
Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, sagði í gær að Noregur hefði ekki fengið neinar tryggingar fyrir tollaskjóli, spurð hvort Ísland komi til með að fá slíka tryggingu svarar Kristrún að ESB telji ekki tímabært að veita neinar beinar skuldbindingar að svo stöddu.
„Við vorum mjög skýr á því að það væri mjög vont ef það kæmist rót á innri markaðinn, sem EFTA-ríkin hafa verið á, og ef að Evrópusambandið myndi ráðast í að setja tolla til að vernda sitt hagkerfi gagnvart innflutningi – þau hafa auðvitað áhyggjur af innflutningi til dæmis frá Kína ef fram fer sem horfir í Bandaríkjunum – að það væri mjög vont fyrir okkar samband. Þau sýndu þessu mikinn skilning. Þau eru meðvituð um það og sammála því að það væri vont ef það kæmist rót á þetta samband okkar.
Það er hins vegar þannig að það er ekki tímabært að veita neinar beinar skuldbindingar vegna þess að ESB hefur ekki tekið neina ákvörðun um að beita sér gagnvart þriðju ríkjum, ef svo má segja. Ótrúlegt en satt þá erum við núna, yfir skamman tíma, að horfa á Evrópusambandið í þriðja fasa af tollaaðgerðum gagnvart Bandaríkjunum. Þau eru fyrst núna að hefja aðgerðir út af áli og stáli frá Bandaríkjunum, sem beinast bara beint að Bandaríkjunum.
Þau telja bara ekki tímabært að ræða skuldbindingar um eitthvað sem gerist mögulega í náinni framtíð en hafa þó skuldbundið sig til að halda okkur upplýstum, og að tryggja það að það komi okkur ekkert á óvart á næstu vikum.“
Á fundi Kristrúnar og Ursulu von der Leyen voru tollamál, breytt landslag í alþjóðaviðskiptum og öryggis- og varnarmál rædd.
„Við ræddum öryggis- og varnarmálin talsvert, stöðuna í Norður-Atlantshafinu og á norðurslóðum. Þau hafa mikinn áhuga og eru forvitin um hvað er að gerast þarna á okkar svæði. Þau spurðu mikið út í stöðu varnar- og öryggismála í landinu og hafa áhuga á því að heyra af því.
Það er vilji, sem að byggir á fyrri samtölum, um að efla frekar samstarf þessara landa á sviði öryggismála og það var rætt um möguleika í því samhengi. Þetta er eitthvað sem að utanríkisráðherra hefur hingað til rætt og er auðvitað grundvöllur frekari samþættingar milli þessara EES-, EFTA-ríkja og Evrópusambandsins. Noregur hefur t.d. verið að útfæra svipaða samþættingu gagnvart Evrópusambandinu.“
Aðspurð segist hún hafa farið yfir svipuð sjónarmið með Costa, þau hafi rætt stöðuna í viðskiptamálum og varnarmálum en mestur tími hafi farið í að ræða þá óvissu sem er uppi, mikilvægi þess að ná að hreyfa sig með skynsömum hætti í þeirri óvissu sem til staðar er.
„Það kom upp umræða sérstaklega er varðar sæstrengi og meðvitund um mikilvægi sæstrengjanna í kringum Ísland og hlutverk Landhelgisgæslunnar í því samhengi, sem þeim þótti mjög áhugavert. Þeim þótti líka áhugavert að heyra af okkar eftirlitsgetu þarna á svæðinu, sem er gríðarleg og mjög víðfeðm.
Svo ræddum við stuttlega stöðuna er snýr að þjóðaratkvæðagreiðslunni um ESB-aðild. Það komu skýr skilaboð frá mér um að það væru ólík sjónarmið þvert á flokkana en að það væru allir sammála um að það væri mikilvægt að fá fram vilja þjóðarinnar. Þetta væri auðvitað innanríkismál á þessum tímapunkti en það skipti máli að eiga áfram jákvæð samskipti við Evrópusambandið sama hvernig þetta fer.“
Aðspurð segist Kristrún hafa verið í samskiptum við forsætisráðherra Noregs eftir fund hans á mánudag, hann hafi farið yfir hver lykilatriðin á fundi hans með von der Leyen hefðu verið.
„Ég var líka í samskiptum við forsætisráðherra Liechtenstein fyrir helgi, þau hafa auðvitað líka verulegar áhyggjur af sinni stöðu, þau fá umtalsvert hærri tolla frá Bandaríkjunum.
Við erum í rauninni bara að samræma okkar skilaboð og tryggja að þau séu skýr.
Ég lauk fundarhöldunum í dag með því að hitta fólk í EFTA-húsinu, starfsfólk þessara þriggja landa sem starfa innan EFTA, innan EES-samningsins.“