Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að horfa megi á aðgerðir Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem ákveðna tilraun í efnahagsmálum.
Í samtali við mbl.is segir hann markmið forsetans vera að reyna að þvinga önnur lönd til þess að flytja meira inn af bandarískum vörum.
„Hann notar þessar aðferðir til þess,“ segir Gylfi og vísar til 90 daga hlés Bandaríkjaforseta á ætluðum tollum fyrir flest ríki heims, sem gefur löndunum tækifæri á að semja við Bandaríkin. Tíu prósent grunnlína verður á tollum á tímabilinu, fyrir öll lönd nema Kína. Hlutabréfavísitölur hafa rokið upp við tíðindin.
„Kannski hefur þetta áhrif þegar upp er staðið en það er alveg ótrúlegt að fylgjast með þessari óreiðu,“ segir Gylfi.
Það er mat Gylfa að ómögulegt sé að spá fyrir um næstu skref í tollamálum en hann segir Trump klárlega vera að reyna að rétta hlut Bandaríkjanna í viðskiptum við önnur lönd með því að minnka hallann á inn- og útflutningi landsins.
„Enginn veit hvað gerist eftir þessa 90 daga, þeir hafa enga hugmynd um hvað þeir ætla að gera eftir 90 daga. Væntanlega verður búið að semja við löndin þegar þar að kemur.“
Bætir hann við að markmið Trumps sé meðal annars að reyna að hvetja til bandarískrar framleiðslu og búa þannig til störf í Bandaríkjunum.
„Það væri auðvitað betra ef tekin væru fyrirsjáanlegri, smærri skref. Þessar miklu sveiflur á mörkuðum og þessi ofsalega óvissa væru þá ekki fyrir hendi. Hún hefur slæm áhrif á fjárfestingu og alla markaði,“ segir Gylfi spurður álits á aðferðum Bandaríkjaforseta að áður nefndu markmiði.
Þá bætir hann við að það megi horfa á óútreiknanlegar aðgerðir Trumps sem ákveðna tilraun í efnahagsmálum.
„Þetta hefur aldrei gerst áður. Það verður áhugavert að fylgjast með þessu,“ segir Gylfi.