Páll Steingrímsson skipstjóri hyggst stefna RÚV vegna vinnubragða í tengslum við umfjöllun sem RÚV birti úr gögnum sem afrituð voru úr síma eftir að honum var byrlað ólyfjan af fyrrverandi eiginkonu sinni.
Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls, segir að hann hafi komið að máli við sig nýlega þar sem hann vill fara í skaðabótamál við fjölmiðilinn. Ekki hefur verið haft samband við RÚV á þessum tímapunkti.
„Páll Steingrímsson hefur leitað til mín og telur hann sig eiga skaðabótakröfu á Ríkisútvarpið. Afstaða Ríkisútvarpsins verður könnuð á næstunni. En þetta er ekki komið af stað og það var í vikunni sem ákvörðun var tekin um að leita bóta fyrir hann.“
„Þetta yrði miskabótamál fyrst og fremst,“ segir Eva en bætir við: „Það sem skiptir mestu máli í þessu er samt að viðurkenning fáist á því að þessi vinnubrögð séu ekki Ríkisútvarpinu sæmandi og að þau standist ekki lög,“ segir Eva.
„Við byrjum á því að leita sátta. En ef þeirri sáttaleið verður hafnað þá geri ég ráð fyrir því að málið endi fyrir dómi,“ segir Eva.
Rannsókn lögreglu á málinu var felld niður þar sem meðal annars kom fram að ekki væri hægt að sanna hver hefði staðið að afritun gagnanna.