Hanna Katrín: „Mér er nokkur vandi á höndum“

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins. Samsett mynd/mbl.is/María

„Spurningarnar voru býsna margar en svo merkilegt sem það er þá voru rangfærslurnar eiginlega fleiri þannig að mér er nokkur vandi á höndum,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Þar spurði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, ráðherra út í veiðigjöldin.

Hann sagði að ríkisstjórnin boðaði 100% skattahækkun í formi tvöföldunar veiðigjalda á sjávarútveginn og þetta væri sagt vera fyrsta skrefið. Í tilfelli veiðigjalds fyrir uppsjávartegundir ætti að miða við verð sem sótt væri til Noregs.

Ríkisstjórnin þverbrjóti eigin reglur

„Veittur var örstuttur tími til athugasemda í samráðsgátt og þar þverbrýtur ríkisstjórnin sínar eigin verklagsreglur. Þar að auki virðist ríkisstjórnin beinlínis harðákveðin í að hafa að engu allar athugasemdir sem bárust í samráðsgátt og liggja fyrir ótvíræðar yfirlýsingar í því efni. Loks er engin minnsta tilraun gerð til þess að meta áhrifin á hag sveitarfélaga og sjávarbyggðirnar eða yfirleitt að ræða við þau sveitarfélög sem hvað mest munu finna fyrir áhrifum af hækkuninni. Með þessu virðist ríkisstjórnin staðráðin í að setja sjávarbyggðir hringinn í kringum landið í fullkomna óvissu,“ sagði Karl Gauti.

Hann spurði ráðherra hvernig ríkisstjórnin hygðist tengja álagningu veiðigjalds við afurðaverð í Noregi.

 „Hvernig munu hugsanlegar sveiflur í gengi norsku krónunnar spila þar inn í eða sveiflur í styrkjum og niðurgreiðslum í norskum sjávarútvegi til veiða og vinnslu spila þar inn í? Má búast við því að fleiri skattar ríkisstjórnarinnar verði tengdir verðlagi í Noregi, t.d. skattar í ferðamannageiranum, nú eða í fiskeldinu? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér áhrif þessarar væntanlegu hækkunar veiðigjaldsins á skiptahlut sjómanna? Telur ráðherra ekki einsýnt að sjómenn muni krefjast sömu viðmiðunar og hæstv. ríkisstjórn, þ.e. hið norska verð, þegar kemur að skiptahlut sjómanna,“ spurði Karl Gauti.

Þjóðin njóti raunverulegs verðmætis

Hanna Katrín þakkaði Karli Gauta fyrir fyrirspurnina en bætti síðan við: „Spurningarnar voru býsna margar en svo merkilegt sem það er þá voru rangfærslurnar eiginlega fleiri þannig að mér er nokkur vandi á höndum.“

Hún sagði að það kæmi skýrt fram í frumvarpsdrögunum, sem hefðu verið í samráði, að það væri brugðist við því að það gætu verið gengissveiflur.

„Það er líka ástæða til að hafna þessari síendurteknu fullyrðingu um að vinnslur í Noregi séu almennt niðurgreiddar. Það er einfaldlega rangt. Ætlum við að halda áfram þeirri vegferð að skattleggja sjávarútveginn? Við erum að leiðrétta gjöld, við erum að fara að gera það sem ríkisstjórnum fyrri ára, fyrri kjörtímabila, hefur annaðhvort mistekist að gera eða þær hafa ekki haft nokkurn minnsta áhuga á að gera; að tryggja að íslensk þjóð njóti raunverulegs verðmætis fiskauðlindarinnar. Þetta er staðreynd. Þetta er það sem lagt var af stað með þegar veiðigjöld voru sett á og núna er verið að fara ofan í grunninn og þá kemur þessi staðreynd í ljós, að það vantar gríðarlega mikið upp á,“ sagði hún.

Vísar samráðsleysi á bug

Hvað varðar meint samráðsleysi þá vísaði hún því á bug.

„Við höfum átt í samtölum við sveitarfélög, við höfum unnið greiningarvinnu. Og það er alveg rétt að þrátt fyrir að við höfum mætt leiðréttingunni með því að hækka frítekjumarkið og þrepaskipta, sem kemur smærri útgerðum til góða, þá getur verið að það séu málefnalegar ástæður til að skoða það enn frekar og það er verið að skoða það núna í umsögnum.

Ég ætla að enda á að leiðrétta enn eina rangfærsluna. Það er ekki þannig að meirihluti umsagna sem kom inn, og þær voru fjölmargar, ríflega 100, hafi verið neikvæður. Það er óskhyggja stjórnmálamanns og stjórnmálaflokka sem standa ekki með þjóðinni í þessu mikla máli,“ sagði ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka