„Þolinmæðin á þrotum“ hjá starfsfólkinu

Hlín Jóhannesdóttir, rektor skólans, á von á því að heyra …
Hlín Jóhannesdóttir, rektor skólans, á von á því að heyra frá stjórnvöldum seinna í dag varðandi stöðu skólans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við verðum að fá að heyra eitthvað í dag því að við vitum ekki hvort næsta vika haldi,“ segir Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, um stöðu skólans.

Greint var frá undir lok mars að skólinn væri farinn í gjaldþrotameðferð.

Starfsmenn ekki fengið útgreidd laun en greiddu rafmagnsreikninginn

Kennslu hefur verið haldið gangandi síðustu vikur þrátt fyrir að kennarar hafi ekki fengið greidd laun og tjáði Rúnar Guðbrandsson, kennari við skólann, Ríkisútvarpinu í dag að kennararnir hefðu efnt til söfnunar til að greiða rafmagnsreikning síðustu mánaðamóta til halda starfseminni gangandi.

„Já, við gerðum það. Við bara lögðum í púkk,“ segir Hlín í samtali við mbl.is.

Vonar að staða skólans komi í ljós á næstu klukkustundum

Hún segir að nauðsynlegt sé að forsvarsmenn skólans fái svör frá stjórnvöldum í dag um stöðu skólans.

„Ég er að vona að þetta komi í ljós á næstu klukkustundum því að núna er bara þolinmæðin á þrotum hjá þessu göfuga fólki,“ segir Hlín og vísar til starfsfólks skólans.

Hljóðið í nemendum farið að breytast 

Þá hafi það mótlæti og skelfingarástand sem skólinn hafi staðið fyrir síðustu vikur þjappað kennurum og nemendum saman og segir Hlín starfsemina hafa gengið á „fallegri hugsjón.“

Nefnir hún einnig að hljóðið í nemendum skólans hafi verið gott framan af en hafi á síðustu dögum farið að breytast. Svör séu því nauðsynleg og segist hún aðspurð eiga von á því að fá upplýsingar frá stjórnvöldum seinna í dag.

„Eitthvað verður að skýrast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert