„Ég get ekki séð hvernig þetta á að vera valdníðsla“

„Ég veit ekki hvernig staðan er í fjármálum þarna, en …
„Ég veit ekki hvernig staðan er í fjármálum þarna, en ég veit að skólinn er gjaldþrota og ég hef auðvitað ekkert leyfi til að setja fjármuni inn í gjaldþrota skóla,“ segir ráðherrann. Samsett mynd mbl.is/Karítas/Eggert

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, segir Kvikmyndaskóla Íslands hafa fengið mikla fjármuni fyrir áramót, sem áttu að duga út árið. Hann hafi ekki leyfi til að setja fjármuni inn í gjaldþrota skóla.

Greint var frá undir lok mars að Kvikmyndaskólinn væri kominn í gjaldþrotameðferð. Kennarar skólans störfuðu áfram launalaust til að halda kennslu gangandi.

Mennta- og barnamálaráðuneytið greindi svo frá í gær að nemendum skólans yrði boðið að ljúka námi í Tækniskólanum.

Forsvarsmenn Kvikmyndaskólans tóku illa í þá lausn og sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu m.a. stjórnsýslu ráðuneytisins vera hreina valdníðslu.

Skólinn þegar gjaldþrota er Guðmundur tók við sem ráðherra

„Ég get ekki séð hvernig þetta á að vera valdníðsla, vegna þess að þessi skóli var orðinn gjaldþrota þegar ég kom inn í ráðuneytið,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

„Ég er búinn að vera að skoða hvað er í gangi þarna og komst að því að þeir fengu hellingsfjármuni fyrir áramót sem áttu að duga allt árið – en þeir dugðu ekki nema tvo eða þrjá mánuði. Ég veit ekki hvernig staðan er í fjármálum þarna, en ég veit að skólinn er gjaldþrota og ég hef auðvitað ekkert leyfi til að setja fjármuni inn í gjaldþrota skóla.“

Ýmislegt þyrfti að breytast

Í viðtali við mbl.is í lok mars sagði Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskólans, að skólinn hefði væntingar um að fá viðurkenningu sem skóli með nám á háskólastigi.

Þá hafa mánuðum saman staðið yfir viðræður milli skólans og bæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og mennta- og barnamálaráðuneytisins, um yfirfærslu málefna skólans úr því síðarnefnda yfir í það fyrrnefnda.

Skólinn hefur hingað til ekki hlotið viðurkenningu sem skóli á háskólastigi og því fylgt honum ekki það fjármagn sem stjórnendur skólans hafa gert sér vonir um.

„Þeir vilja fá þetta á háskólastig, og þá kemur mér þetta auðvitað ekkert við ef það fer þangað. En vandamálið er að þau verða að fara eftir lögum og reglum. Skólinn uppfyllir til dæmis ekki reglur um námslán,“ segir Guðmundur, þegar hann er spurður um viðræðurnar, og nefnir að ýmislegt þurfi að breytast til þess að skólinn fái viðurkenningu sem háskólastofnun.

Kannaði hvað hann gæti gert fyrir nemendurna

Hann segir að í ljósi stöðu skólans hafi hann farið að kanna hvað hann gæti gert fyrir nemendur hans. Hann hafi komist að því að Tækniskólinn væri tilbúinn til að taka við nemendunum, sem hann segir mjög jákvætt, þar sem um sé að ræða framhaldsskóla sem veiti brú yfir í háskóla að námi loknu.

Í kjölfar ákvörðunar mennta- og barnamálaráðuneytisins gaf Rafiðnaðarsamband Íslands út yfirlýsingu þar sem fram kom að Rafmennt, sem sinnir fræðslu fyrir raf- og tækniiðnaðinn á Íslandi, vilji ganga til viðræðna við ráðuneytið um að taka við þeirri kennslu sem Kvikmyndaskólinn hefur haft á sinni könnu.

„Ég hélt að þeir ætluðu að taka þetta yfir. Síðan skildist mér að þeir hefðu hætt. Núna eru þeir komnir aftur, og ég mun þá skoða þetta áfram,“ segir Guðmundur aðspurður um málið.

„Eins og ég segi: Ég get ekkert annað gert en að fara eftir lögum, og á meðan skólinn er gjaldþrota sé ég ekki hvernig ég á að taka á því. En ef Rafmennt tekur yfir, þá er hann bara kominn á sama stað og aðrir einkaskólar og getur sótt um til okkar,“ segir ráðherrann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert