Áhyggjufullir nemendur kalla eftir endurskoðun

Nemendur við Kvikmyndaskóla Íslands hafa skrifað opið bréf til Guðmundar …
Nemendur við Kvikmyndaskóla Íslands hafa skrifað opið bréf til Guðmundar Inga Kristinssonar, barna- og menntamálaráðherra. Samsett mynd mbl.is/Ólafur Árdal/Karítas

Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands segjast vilja fá viðeigandi lausn í máli skólans. Þeir segja tillögu menntamálaráðuneytisins, um að nemendunum verði boðið að ljúka námi sínu við Tækniskólann, vera fljótræði af hálfu ráðuneytisins og barna- menntamálaráðherra, Guðmundar Inga Kristinssonar, og kalla eftir því að tillagan verði endurskoðuð í samráði við nemendurna.

Þetta segir í opnu bréfi til barna- og menntamálaráðherra frá nemendum skólans.

„Við virðumst föst í svartholi óvissu og á milli ráðuneyta“

Segir í bréfinu enn fremur að nemendurnir vilji vekja athygli á þeirri grafalvarlegu stöðu sem þeir standi nú frammi fyrir. Barátta þeirra snúist fyrst og fremst um að tryggja áframhaldandi gæði náms.

„Samróma vilji okkar er að skólinn haldi áfram í núverandi formi og að auki skuli hlotnast viðurkenning fyrir það nám sem okkur er kennt. Háskólaráðuneyti hefur nú þegar viðurkennt námið sem háskólanám. Við köllum eftir því að þitt ráðuneyti geri það líka. Við virðumst föst í svartholi óvissu og á milli ráðuneyta, en það er kjarninn og orsakavaldur stöðunnar sem nú er uppi,“ segir í bréfinu.

Hvetja ráðherra til að vinna að viðeigandi lausn

Benda nemendurnir á að þeir séu partur af mikilvægu þekkingarsamfélagi sem megi ekki hverfa á einni helgi að illa ígrunduðu ráði. Of mikil verðmæti séu í húfi.

Hvetja þeir ráðherra til að vinna að viðeigandi lausn í málinu í samráði við nemendurna sjálfa þar sem staðreyndir og þekking ráði vegferð, í stað fljótfærni.

„Þegar þetta bréf er skrifað hafa nemendur ekki heyrt frá neinum innan ráðuneytis né Tækniskólanum sem nú er lagt til að leiði okkar nám. Við óskum eftir ykkar liðsstyrk í okkar baráttu að viðhalda gæðum á náminu.“

„Ekki hægt að flokka skóla sem rekstrarfélag“

Þá koma nemendurnir eftirfarandi á framfæri:

„Það er ekki hægt að flokka skóla sem rekstrarfélag. Um er að ræða þekkingarstofnun í fremsta flokki sem hefur tekið áratugi að byggja upp. Enginn er að fara fram á að gjaldþrota félagi verði bjargað.

Í okkar samfélagi er ekki óvild í garð einstaklinga né annarra stofnana. Við viljum fá viðeigandi lausn í okkar máli og að umræða sé byggð á staðreyndum og þekkingu á málefni.

Íslenskur kvikmyndaiðnaður er í dag öflugt fyrirbæri og langstærsti menningariðnaðurinn sem ekki ætti að vanmeta. Hann skilar nú milljörðum árlega í þjóðarbú landsmanna sem annars væri vandfundið fé. Iðnaðurinn er atvinnuskapandi og bætir landkynningu á ómetanlega vegu. Við munum leiða iðnaðinn sem forverar okkar, fyrrverandi nemendur skólans, standa nú fyrir.“

Opið bréf til ráðherra í heild sinni

Opið bréf til mennta og barnamálaráðherra: Ákall frá áhyggjufullum nemendum Kvikmyndaskóla Íslands.

Hæstvirtur ráðherra,

Við nemendur í kvikmyndagerð við Kvikmyndaskóla Íslands viljum með þessu bréfi vekja athygli á grafalvarlegri stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir. Barátta okkar snýst fyrst og fremst um að tryggja áframhaldandi gæði náms. Samróma vilji okkar er að skólinn haldi áfram í núverandi formi og að auki skuli hlotnast viðurkenning fyrir það nám sem okkur er kennt. Háskólaráðuneyti hefur nú þegar viðurkennt námið sem háskólanám. Við köllum eftir því að þitt ráðuneyti geri það líka. Við virðumst föst í svartholi óvissu og á milli ráðuneyta, en það er kjarninn og orsakavaldur stöðunnar sem nú er uppi.

Við bendum á að við erum partur af mikilvægu þekkingarsamfélagi sem má ekki hverfa á einni helgi að illa ígrunduðu ráði. Hér eru einfaldlega of mikil verðmæti í húfi. Nemendur hvetja ráðherra að vinna að viðeigandi lausn í samráði við nemendur þar sem staðreyndir og þekking ráða vegferð, en ekki fljótfærni. Þegar þetta bréf er skrifað hafa nemendur ekki heyrt frá neinum innan ráðuneytis né Tækniskólanum sem nú er lagt til að leiði okkar nám. Við óskum eftir ykkar liðsstyrk í okkar baráttu að viðhalda gæðum á náminu og um leið koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri.

Það er ekki hægt að flokka skóla sem rekstrarfélag. Um er að ræða þekkingarstofnun í fremsta flokki sem hefur tekið áratugi að byggja upp. Enginn er að fara fram á að gjaldþrota félagi verði bjargað.

Í okkar samfélagi er ekki óvild í garð einstaklinga né annarra stofnana. Við viljum fá viðeigandi lausn í okkar máli og að umræða sé byggð á staðreyndum og þekkingu á málefni.

Íslenskur kvikmyndaiðnaður er í dag öflugt fyrirbæri og langstærsti menningariðnaðurinn sem ekki ætti að vanmeta. Hann skilar nú milljörðum árlega í þjóðarbú landsmanna sem annars væri vandfundið fé. Iðnaðurinn er atvinnuskapandi og bætir landkynningu á ómetanlega vegu. Við munum leiða iðnaðinn sem forverar okkar, fyrrverandi nemendur skólans standa nú fyrir.

Núverandi og fyrrverandi nemendur skólans eru gangandi vitnisburður um afurð þess sem skólinn hefur skilað til samfélagsins. Það er ekki hægt að senda læknanema í lögfræði, en sú samlíking er okkar upplifun á tilfærslu Kvikmyndaskóla Íslands í Tækniskólann. Við köllum eftir því að sú tillaga verði endurskoðuð. Jafnframt ber að geta að mál okkar snýst ekki um hvort við viljum valkost A eða B í framhalds- eða tækniskólum landsins. Við vekjum athygli á að grafalvarleg mistök eru í uppsiglingu á ykkar vakt og nauðsyn þess að málið fái viðeigandi meðferð þegar í stað. Það er á ábyrgð stjórnvalda að halda utan um íslenskt menntakerfi og tryggja velferð námsmanna og að tryggja aðgang að hæfu námi eftir þörfum og eftirspurn. Hjá okkur er þörf, hjá okkur er ákall og hér er formleg beiðni um að á okkur sé hlustað. Staðan, eins og hún er verður annars að okkar banameini. Það er þörf á kunnáttu sem við lærum hér og eftirspurn á náminu fyrir vaxandi iðngrein.

Það vekur undrun okkar hvernig farið er með okkar hóp. Við höfum horft upp á brottfall í vetur, þar sem nemendur eru neyddir til að snúa á vinnumarkað, þótt þeir óski þess eins að halda áfram í náminu. Það er sárt að horfa upp á en við vitum jú öll að það þarf salt í grautinn. Þá eru nemendur að kosta sig sjálfir í skólann, 1,2 milljónir í skólagjöld á ári, allan framleiðslukostnað myndanna þeirra sem gerðar eru á hverri önn og síðan má ekki gleyma almennu uppihaldi. Það er gífurlegur kostnaður. Fæst okkar eru fædd með silfurskeið í munni. Því er mikil blóðtaka fyrir okkur að fá ekki lánshæfi og aftur vitnum við í svartholið sem orsakavald þess.

Við viljum meina að ný tillaga sé fljótræði að hálfu ráðuneytis og ráðherra. Það verður þungur róður fyrir framleiðslufyrirtæki sem reiða sig á að fá nemendur úr skólanum við gerð sinna verkefna þar sem margar af stærstu kvikmyndum í heimi eru teknar upp hér á landi. Nú er eitt slíkt handan við hornið. Það er algjör þversögn að veita kvikmyndaframleiðendum skattaafslátt en drepa niður þá sem eiga að vinna þau verk.

Erlenda deildin okkar er síðan annað stórt mál. Fólk víðsvegar að úr heiminum kemur hingað til að læra kvikmyndagerð, borga tvöföld skólagjöld og finnst frábært að fá þetta tækifæri. Ísland og kvikmyndagerð er nefnilega orðið stórt á alþjóðlegum vettvangi, það er því furða að stjórnvöld sjái þetta ekki.

Margir nemendur eru með eina, jafnvel tvær háskólagráður. Þetta er raunverulegt þekkingarsetur. Hér er hæfasta fólk bransans að kenna út frá ástríðu, allt frá óskarstilnefndum aðilum yfir í þaullærða kennara með doktorsgráður. Ekki er hér um “einhvern einkaskóla” að ræða. Hér hafa safnast saman verðmæti úr mörgum áttum sem ekki verða metin til fjár, og skal ekki dæma af léttúð. Áratuga grasrótastarf sem nú er leitt af launalausum kennurum með hugsjón. Og við nemendur fylgjum þeim.

Við minnum á að framtíð nemenda og íslensk kvikmyndagerð er í húfi.

Virðingarfyllst,

Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert