Sögðu þingmennirnir satt í pallborðinu?

Nokkrar vöflur komu á þingmanninn Guðmund Ara Sigurjónsson þegar hann var spurður út í hvort meirihutinn hefði látið vinna greiningu á því hver áhrif hækkandi veiðigjalda yrðu á afkomu ríkissjóðs.

Þetta gerðist í pallborði á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS.

Bending frá ráðherra

Þar var hann spurður út í það hvort greining af þessu tagi hefði farið fram. Enduðu orðaskiptin á því að hann fékk bendingu frá atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínu Friðriksson, sem sagði slíka greiningu hafa farið fram.

Var ráðherra þá spurður út í það hvort sú greining hefði fylgt með í skjölum þeim sem lögð voru fram í samráðsgátt stjórnvalda. Af svörum Hönnu Katrínar má ráða að þeim hafi verið haldið frá þeim sem gera vildu athugasemdir við fyrirætlanir stjórnvalda um að tvöfalda veiðigjöld á sjávarútveginn.

Í kjölfar þessara orðaskipta, sem vöktu mikla athygli allra viðstaddra á fundinum sem haldinn var í Hörpu, leitaði Morgunblaðið svara við því hvort greiningin, sem þingmaðurinn og ráðherrann fullyrða að hafi verið unnin, liggi inni í stjórnarráðinu.

Guðmundur Ari Sigurjónsson er þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Hanna Katrín Friðriksson er …
Guðmundur Ari Sigurjónsson er þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra. mbl.is/samsett mynd

Engin svör, bara alls engin

Engin svör fást við því.

Enn síður fást svör við því hvort blaðamenn geti fengið aðgang að greiningunni. En sé hún til, þá gæti hún varpað ljósi á það hvaða áhrif hin aukna skattheimta getur haft á afkomu ríkissjóðs.

Er talið mikilvægt að varpa ljósi á það vegna ótta margra, ekki síst sveitarfélaga sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, við það að draga muni verulega úr fjárfestingu samhliða hinni auknu gjaldtöku. Það getur haft veruleg áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaganna, framtíðartekjumöguleika í formi fasteignagjalda og annað í þeim dúr.

Orðaskiptin af fundi SFS má sjá í spilaranum hér að ofan. En það bíður hins vegar síns tíma að fá úr því skorið hvort greiningin hafi í raun verið gerð og þá hvort að þingmaðurinn og ráðherrann hafi sagt fundarmönnum satt eður ei.

Um uppákomuna var rætt á vettvangi Spursmála á föstudag. Þáttinn má nálgast í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert