„Maður veit aldrei hvenær slysin geta gerst,“ segir Tinna Gunnarsdóttir, leiðsögumaður og björgunarsveitarmaður, sem varð vör við holu sem nýlega hafði myndast við Brúna milli heimsálfa um helgina. Virðist sprunga vera þar undir.
Tinna gengur um svæðið mjög reglulega og segir holuna ekki hafa verið þar þegar hún var síðast á staðnum, fyrir um viku eða tveimur síðan.
„Maður verður oft var við svona holur þegar maður er að ganga á fjöllum á Reykjanesinu, en þetta er í fyrsta skipti sem ég sé svona á fjölförnum stað,“ segir Tinna í samtali við mbl.is.
Hún segist hafa orðið vör við holuna þegar hún sá lítinn dreng gera sig líklegan til þess að príla ofan í hana.
„Ég náttúrulega bara stoppa það, því að maður hugsar strax um það sem gerðist í Grindavík, þar sem maður hvarf ofan í sprungu, og mér finnst þetta líklegt til að geta hrunið eitthvað meira niður,“ segir Tinna.
Hún nefnir að þörf sé á að mynda svæðið betur og girða það af.
Sjálf hefur hún tilkynnt holuna til SafeTravel.
„Ef þetta er að fara að gerast víðsvegar á Reykjanesinu, að einhverjar svona holur séu að myndast undir yfirborðinu og fólk að labba út um allt – maður veit aldrei hvenær slysin geta gerst.“
Tinna segir að hún sjálf veigri sér við að fara ákveðnar gönguleiðir á svæðinu.
„Af því maður veit ekkert hvernig þetta er núna eftir alla þessa jarðskjálfta síðasta árið.“
Hún viti þó til þess að almannavarnir hafi varað við því að ganga um á ákveðnum svæðum.
„Þetta er ekkert sem maður er eitthvað ómeðvitaður um. En ég er ekki viss um að hinn almenni túristi sé meðvitaður um þetta.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.