Lögreglan sér neikvæða þróun og fleiri birtingarmyndir á því að börn séu hagnýtt af bæði innlendum og erlendum hópum sem stunda skipulagða brotastarfsemi hér á landi.
Tilgangurinn er meðal annars að fá börn og unglinga til að dreifa fíkniefnum, taka þátt í þjófnaði, innbrotum og fremja ofbeldisbrot. Þá er kynbundu ofbeldi gjarnan beitt.
Línan á milli áhættu- og afbrotahegðunar barna er orðin mjög þunn og ákveðinn hópur sækist í að taka þátt í skipulagðri brotastarfsemi. Þá hefur aðgengi að samfélagsmiðlum opnað börnum nýjan heim.
Skortur á viðeigandi meðferðarúrræðum getur hafa átt einhvern þátt í þeirri neikvæðu þróun sem orðið hefur í sambandi við birtingarmyndir hagnýtingar hér á landi.
Á Norðurlöndunum eru brotahópar farnir að auglýsa eftir börnum á samfélagsmiðlum og dulkóðuðum síðum til að fremja ofbeldisverk og er töluverð ásókn í slík verkefni. Er þá jafnvel um að ræða börn sem hafa enga sögu um afbrotahegðun. Vandlega er fylgst með því hvort sú þróun sé að eiga sér stað hér á landi.
Þetta segir Katrín Sif Oddgeirsdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
„Á Íslandi erum við að sjá fjölbreyttar birtingarmyndir á hagnýtingu barna. Frá sjónarhorni lögreglu er þetta ekki nýtt fyrirbæri, það eru til mörg dæmi síðastliðinn áratug. Við höfum séð að ungmenni hafa verið að selja fíkniefni fyrir aðra, þau hafa verið tekin í hóp þar sem verið er að smygla efnum til landsins, bæði á landamærum og innan landamæra,“ segir Katrín.
„Hins vegar það sem er að breytast og við erum að sjá vísbendingar um í okkar gögnum er að birtingarmyndirnar eru öðruvísi. Börn eru hagnýtt í önnur afbrot en bara á fíkniefnamarkaðnum, það er þjófnaður, innbrot og jafnvel ofbeldi. Þá erum við að sjá að eldri einstaklingar eru að fría sig frá áhættu eða aðkomu að slíkum verknaði,“ segir hún jafnframt.
„Það eru ýmis rauð flögg sem við erum að horfa á þegar við förum að skoða þetta náið, þá eru börn og ungmennahópar að hanga með brotamönnum. Þau eru keyrð á milli staða í bíl með miklu eldri einstaklingum, sem tengjast þeim ekki neinum öðrum böndum.“
Katrín bendir á að skipulögð brotastarfsemi sé ógn við innra öryggi landsins og innviði þess. Þá séu börn viðkvæmasti hópur samfélagsins. Í því samhengi sé mikilvægt að hafa í huga að 17 ára einstaklingar séu enn þá börn.
Hér á landi eru ákveðnir hópar í skipulagðri brotastarfsemi sem lögreglan óttast að reyni að nálgast börn og unglinga enn frekar og með meira afgerandi hætti en áður.
„Þegar við erum að tala um hagnýtingu þá erum við að tala um í stórum skilningi, þetta er aðferðafræði, þetta er kerfisbundið, þar sem börn eru hvött, þvinguð eða beitt misnotkun. Hún birtist þegar einstaklingur eða hópur í skipulagðri brotastarfsemi notfærir sér börn til að stjórna eða blekkja og það getur verið skiptivinna, gefa barninu eitthvað í staðinn fyrir ákveðna vinnu, þau geta verið fengin til að stela eða taka þátt í öðrum brotum vegna efnahagslegs ávinnings.
Börn geta framkvæmt þetta allt og verið gerendur en skilgreinast samt sem þolendur þrátt fyrir að aðstæður virðist vera með samþykki beggja. Börn hafa ekki skilning á því hvaða aðstæður þau eru komin í vegna aldurs, þroska og jafnvel valdamismunar í þessum heimi,“ útskýrir hún.
Nýlega voru tvær erlendar stúlkur handteknar fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning á Keflavíkurflugvelli, en þær fluttu til landsins 20 þúsund falsaðar Oxycontin-töflur. Önnur stúlkan er undir 18 ára aldri og er grunur um að brotahópar hafi nýtt sér stúlkurnar til að flytja inn efnin.
Katrín segir svona mál ekki vera einsdæmi hér á landi, á síðustu árum hafi komið upp sambærileg mál.
Hún tekur fram að hún geti ekki tjáð sig um einstök mál, en þegar börn eigi í hlut verði að hafa í huga einhver annar sjái um skipulagninguna, annaðhvort hér á landi eða erlendis.
Líkt og áður sagði eru birtingarmyndirnar hagnýtingar margvíslegar, en Katrín segir það oft gleymast að undir það falli líka kynbundið ofbeldi. Slíkt ofbeldi hafi alltaf verið hluti af skipulagðri brotastarfsemi.
„Stelpur undir 18 ára, sem eru börn og eru í viðkvæmri stöðu, eru jafnvel í neyslu og eru beittar kynferðislegri misnotkun af brotamönnum og brotahópum til að borga upp í skuld til dæmis. Þessi litli hópur á sér ekki rödd en er svo sannarlega til staðar.“
Þrátt fyrir að neikvæð þróun hafi átt sér stað hér á landi, er staðan ekki orðin jafn slæm og á Norðurlöndum þar sem börn eru líka nýtt til að fremja manndráp og jafnvel flutt á milli landa til að fremja alvarleg ofbeldisverk. Með því fría brotahóparnir sig saksókn, því erfitt er að greina aðkomu hópanna að málunum.
„Þá eru sérstakar aðferðir sem brotahópar nýta sér, sem gerir frumkvæðislöggæslu sérstaklega erfiða. Þá auglýsa brotahópar á samfélagsmiðlum eða dulkóðuðum síðum, eftir börnum til að fremja alvarleg afbrot. Börnum, sem eru jafnvel ekki í neyslu eða eiga sér enga sögu um afbrotahegðun, og í boði eru háar fjárhæðir. Barnið er leitt skref fyrir skref í gegnum verknaðinn. Framboðið af þessum auglýsingum er rosalega mikið en það er líka mikil eftirspurn eftir þessum auglýsingum, þar sem börn eru til að fremja afbrot fyrir góða fjárhæð. Þetta er svona „trend“ sem er núna mikið verið að skoða og þar af leiðandi erum við að skoða það líka.“
Katrín segir lögregluna ekki hafa séð þessa aðferðafræði notaða hér á landi til að sækja börn í afbrot. Lögreglan þurfi engu að síður að vera vakandi fyrir því að brotahópar finni sér sífellt nýjar aðferðir til að halda sínu striki.
Aðspurð hvort það sé ekki viðbúið að við sjáum þessa aðferðafræði ryðja sér til rúms hér á landi, líkt og flest annað sem gerist í nágrannalöndunum, segir Katrín mjög vel fylgst með því. Það vinni með okkur hér á landi að vera eyja.
„Þetta er svona helsta aðferðarfræðin núna sem brotahópar nýta sér til að ná til barna og ungmenna og fría sjálfa sig frá saksókn. Við erum ekki að sjá þetta, við erum enn þá í byrjunarumræðu um hagnýtingu. Það er mun þroskaðri umræða í löndunum í kringum okkur.“
Þá hafi lögreglan heldur ekki séð börn koma hingað til lands til að fremja ofbeldisbrot, eins og er að gerast á Norðurlöndunum.
Allir þeir fagaðilar sem mbl.is hefur rætt við í tengslum við fíkniefnaneyslu og áhættu- og afbrotahegðun barna og unglinga, hafa verið sammála um þau sem leiðast inn á þessa braut séu sífellt að verða yngri og neyslan harðari á skemmri tíma.
Leiðin inn í hópana virðist styttri en áður, aðgengið meira og neyslan sýnilegri. Skortur á meðferðarúrræðum fyrir börn með alvarlegan hegðunar- og fíknivanda spilar sitt hlutverk í þeim efnum, því börn sem ættu að vera í meðferð eða í einhvers konar úrræði, fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa. Fara svo jafnvel aftur í sama farið eftir meðferð og greiningu, því langtímameðferð er ekki til staðar.
Katrín segir skort á viðeigandi meðferðarúrræðum geta átt sinn þátt í þeirri neikvæðu þróun sem hefur verið að eiga sér stað í sambandi við birtingarmyndir hagnýtingar hér á landi.
„Það getur alveg verið breyta í þessu samhengi. Meðferðarúrræði er gífurlega mikilvægur hluti af því að koma til baka úr neyslu og afbrotum. Það þarf einhver að grípa þig. Það þurfa að vera úrræði til staðar,“ segir Katrín.
„Ég held að þessi lína á milli áhættu- og afbrotahegðunar sé orðin mjög þunn. Börn hafa alltaf sýnt áhættuhegðun, það er í eðli sumra barna, en þessi lína er orðin mjög þunn. Börn fara hraðar í alvarlegri neyslu og slíkt.“
Þau börn og unglingar séu enn móttækilegri en aðrir þegar brotahópar nálgast þau með einhvers konar tilboð.
„Þá þurfum við líka sem samfélag að hægja aðeins á okkur og hugsa hvað það er í menningunni hjá okkur sem gerir það að verkum að þetta á sér stað. Þetta á sér líka stað á Norðurlöndunum, við erum ekki eyland með þetta. En við þurfum samt að skoða hvað er það í okkar menningu sem knýr þessa þróun áfram,“ segir Katrín og vísar þar til þeirrar þróunar að yngri börn dragist hraðar inn í neyslu en áður.
Allur gangur sé þó á því hvort þau börn sem dragast inn í skipulagða brotastarfsemi glími við einhvers kona vanda eða ekki. Stundum sé eingöngu um að ræða áhættuhegðun sem þróast út í afbrotahegðun. Meirihlutinn sé þó jaðarsettur og berskjaldaðri fyrir vikið.
„Auðvitað erum við að sjá viðkvæmasta hópinn, börn sem eru í neyslu, jafnvel mikilli neyslu, en þetta eru börn með alls konar bakgrunn.“
Hún segir alveg dæmi um að börnum þyki spennandi að fá að taka þátt í brotastarfsemi og sæki í spennuna sem því fylgir.
„Þessi heimur er líka spennandi, það er margt að gerast, hann er hraður, það er ákveðinn áhætta sem þarf að taka og það getur verið mjög spennandi fyrir börn sem leiðast út í áhættuhegðun og gera sér ekki grein fyrir hættunum sem leynast.“
Katrín segir það stundum gleymast í umræðunni að sú menning sem tíðkast innan skipulagðrar brotastarfsemi sé mjög heillandi fyrir þá sem upplifa sig utanveltu.
„Þá er spennandi að fara inn í heim þar sem þú færð allt í einu að tilheyra hópi og þú færð athygli.“
Í skýrslu ríkislögreglustjóra frá því síðasta sumar um ofbeldi ungmenna var sjónum meðal annars beint að áhrifum samfélagsmiðla á ofbeldishegðun barna.
„Nú geta börn 15 ára börn verið stödd heima hjá sér eða úti á róló og fengið beint í æð ofbeldisverknað í símann, þar sem verið er að lemja annan mann, eða jafnvel enn verri brot, hreinar og klárar aftökur. Það eru þessar stuttu leiðir fyrir börn til að sjá efni sem þau voru ekki að sjá fyrir tíu árum í símanum sínum.“
Katrín telur þó ekki að þetta sé eina vandamálið, en það séu engu að síður mikilvægt að vera vakandi fyrir því hvað börnin séu að horfa á í símanum.
Þá vill hún ekki tengja saman aukin vopnaburð ungmenna og skipulagða brotastarfsemi, hins vegar sjái lögreglan það oft í alvarlegum brotum, þar sem vopnum er beitt, hvort sem um er að ræða skotárás eða alvarlega líkamsárás, að ungmenni eru viðriðin málin með einhverjum hætti. Þá sem hluti af hópnum.
Katrín segir afbrotavarnir algjört lykilatriði í því að reyna að sporna við neikvæðri þróun og koma í veg fyrir að hagnýting barna og unglinga þróist með sama hætti og á Norðurlöndunum. Leggja þurfi enn meiri áherslu á afbrotavarnir hér á landi.
„Það þarf að grípa þessi börn sem eru berskjölduð eða í viðkvæmri stöðu vegna neyslu eða samfélagslegrar stöðu þeirra. Börn sem hafa orðið fyrir áföllum, vanrækslu eða ofbeldi, það getur leitt af sér áhættuhegðun og síðar afbrotahegðun. Þetta er því ekki eingöngu lögreglumál, við þurfum samvinnu allra lykilaðila sem koma að málefnum barna.“
Stór skref hafi nú þegar verið stigin í þeim efnum að sögn Katrínar. Meðal annars með því að efla samfélagslöggæslu, sem sé mikilvægur þáttur í löggæslunni til að sporna við því að börn fari út í áhættuhegðun. Verið sé að rannsaka mál og tilkynna til barnaverndar þegar brot komi upp.
Þá hafi verið settur á fót vinnuhópur sem hafi það að markmiði að vinna að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi barna. Markmiðið sé að samþætta kerfin.
„Það er styrkleiki í íslensks samfélags að geta gripið inn í fljótt og ég held það sé verið að stíga stór skref núna.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.