„Enginn skilur hvað eigi að taka við“

Snorri gagnrýnir málflutning ráðherrans.
Snorri gagnrýnir málflutning ráðherrans.

„Þetta væri mögulega forsvaranleg aðgerð ef hún væri gerð á grunni einhvers annars en óljósrar hugmyndar embættismanna og nú ráðherra um meinta ósanngirni sem sögð er ríkja gagnvart einstaka nemanda. Það er raunverulega ekki að sjá að dýpri og ígrundaðri hugsun búi hér að baki,“ segir Snorri Másson þingmaður Miðflokksins í yfirlýsingu. 

Hann gagnrýnir harðlega orð Guðmundar Inga Kristinssonar menntamálaráðherra sem sagði í samtali við mbl.is að horfa ætti til annarra þátta en einkunna við mat á inngöngu nemenda í framhaldsskóla. 

Kollvarpar kerfinu 

„Nú er það orðin opinber stefna menntamálayfirvalda að draga verulega úr sérstöðu einstakra framhaldsskóla á Íslandi. Framvegis eiga þeir ekki að fá að taka inn námsmenn eins og hæfir þeirra áherslum,“ segir Snorri.

„Hugsunin er sú að einstaka „elítuskólar“ séu ekki að „fleyta rjómann“ af nemendahópnum til þess að tryggja líkur á góðum árangri þegar komið er til náms. Nú virðist sem sagt í raun eiga að kollvarpa því kerfi sem hefur verið við lýði. Enginn skilur hvað eigi að taka við og ekki varð það skýrara í þessu viðtali við nýjan ráðherra,“ segir Snorri.

Framúrskarandi skólar viðnám menntakerfisins 

Snorri segir að ekki verði annað séð en að ef áformin verða að veruleika muni það leiða til frekara hruns íslensks menntakerfis. 

„Í því sambandi gleymist að það sem einna helst hífir upp lélegan meðalárangur okkar eru, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, framúrskarandi skólar þar sem miklar kröfur eru gerðar til nemenda. Því miður er stuðst þar við hlutlaust mælitæki sem kallast einkunnir. Þær hafa nú verið gerðar að táknmynd félagslegs óréttlætis. Í baráttu gegn slíkri ófreskju dugar ekki minna en að jafna allt við jörðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert