Sonur Ernu Katrínar Árnadóttur verður 28 mánaða þegar hann fær leikskólapláss á Seltjarnarnesi í haust, en honum hefur verið úthlutað plássi í október.
Erna er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi og hefur alltaf staðið í þeirri trú að þar sé best fyrir ungar fjölskyldur að búa, en sökum stöðu mála með dagvistunarúrræði barna er hún ekki svo viss lengur.
Það hefur reynst henni og manninum hennar gríðarlega erfitt að halda bæði áfram í starfi en Erna þakkar fyrir að vera sjálf í vaktavinnu, sem geri henni kleift að vinna um helgar og á næturnar – annars hefði hún orðið að vera tekjulaus með son sinn heima.
„Ég kom til baka úr orlofi og vissi að staðan yrði ekki góð en vinnuveitandi bauð ekki upp á annað en 100% vinnu. Sem betur fer er ég í vaktavinnu og vinn mjög mikið næturvaktir og helgarvaktir en það hafa ekki allir kost á að geta það,“ segir Erna í samtali við mbl.is.
„Þetta hefur verið algjört púsluspil og svo er svo leiðinlegt að heyra „já, bíddu barnið mitt er yngra en barnið þitt, er þitt ekki komið á leikskóla?“ frá vinum í Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði, þar sem leikskólamálin standa betur. Ég er líka oft spurð hvort það sé ekki svo gott fyrir barnafjölskyldur að búa á Seltjarnarnesi og þykir mjög leiðinlegt að vera farin að svara því neitandi.“
Erna er Seltirningur í fjórða ættlið og býr öll fjölskyldan hennar á nesinu, segist hún aldrei hafa íhugað að flytja fyrr en eftir að hún átti börn. Hún segist upplifa að bæjarstjórnin einblíni mun meira á málefni þeirra sem eldri eru en þeirra yngri.
„Eftir næturvakt kem ég beint heim og fer með son minn út á róló, svo sér maður ungbarnaleikskólann í útiveru og börnin öll að syngja hjólin á strætó, og ég er þarna eins og einhver vofa að ýta honum í rólunni,“ segir Erna, hana verki í hjartað við tilhugsunina um hverju sonur sinn sé að missa af.
„En hann er góður í að setja í þvottavél og fara í Bónus,“ bætir Erna við.
Finnst þér þú sjá mun á honum og öðrum börnum á hans aldri sem eru komin á leikskóla?
„Já 100%. Bæði í þroska og orðaforða. Frænka hans er fædd tveimur mánuðum á undan honum og hún er á þessum ungbarnaleikskóla. Ég sé rosalega mikinn mun á þeim tveim.“
Meðal þeirra ástæðna sem Ernu hefur verið gefið fyrir biðinni eftir leikskólaplássi er skortur á húsnæði. Þetta dregur hún í efa en að hennar sögn hefur rýmið sem bærinn leigir af kirkjunni staðið autt vikum saman, Fagrabrekka hafi verið fjarlægð og Vallabrautarróló sé frábærlega staðsettur fyrir lítinn leikskóla.
Íbúar á Seltjarnarnesi hafa miklar áhyggjur af dagvistunarúrræðum barna sinna og segja sérstaklega brýnt að bregðast við skorti á úrræðum fyrir yngstu börnin. Með nýjum undirskriftarlista er skorað á bæjarstjórn Seltjarnarness að setja barnafjölskyldur í forgang í stefnumótun og við ákvarðanatöku.
Segja þeir ekkert dagforeldri vera starfandi á Seltjarnarnesi og fjölskyldur hafi ekki lengur aðgengi að úrræðum í Reykjavík. Að óbreyttu muni börn sem fædd eru fyrri hluta ársins 2024 ekki fá leikskólapláss fyrr en um haustið 2026, orðin 28-30 mánaða gömul.