Tveir ökumenn voru í dag kærðir fyrir brot á reglugerð um gerð og búnað ökutækja en mennirnir höfðu komið dökkri filmu fyrir í fremri hliðarrúðum bifreiða sinna. Hefur lögreglan farið fram á að bifreiðarnar verði boðaðar í skoðun.
Frá þessu er gert grein fyrir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hvað snertir verkefni hennar frá því klukkan 5 í morgun til 17 í dag. 98 mál voru skráð í kerfi lögreglu á tímabilinu og gista þrír aðilar í fangaklefa.
Lögreglustöð eitt, sem sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, var kölluð til vegna líkamsárásar í heimahúsi. Þegar lögreglu bar að garði var gerandinn hvergi sjáanlegur. Málið er til rannsóknar.
Þrír ökumenn voru handteknir í umdæmi lögreglustöðvar eitt grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Reyndust mennirnir einnig án ökuréttinda. Þeir voru allir fluttir á lögreglustöð í hefðbundið ferli.
Þá var tilkynnt um vinnuslys í umdæmi lögreglustöðvar tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ. Þar hafði maður fallið fram fyrir sig og rotast. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, barst tilkynning um fundin fíkniefni í umdæminu. Lögreglan tók við efnunum og fargaði þeim.