Lengja opnunartímann á ný

Hægt verður að vera í sundi til kl. 22 í …
Hægt verður að vera í sundi til kl. 22 í sumar. mbl.is/Sigurður Bogi

Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt tillögu um lengri opnunartíma í sundlaugum borgarinnar í sumar. Lengist opnunartíminn um eina klukkustund frá og með 1. júní til 31. ágúst. 

Opið verður til 22 í sundlaugum borgarinnar um helgar í sumar en opið hefur verið til 21 um helgar frá því á síðasta ári þegar ákveðið var að stytta opnunartímann til að spara fé.

Opið verður 10-18 í Klébergslaug á Kjalarnesi um helgar í sumar en nú er opnunartíminn 11-18. 

Útgjöld upp á sjö milljónir

Gert er ráð fyrir að útgjöld borgarinnar aukist um sjö milljónir króna vegna launakostnaðar vegna lengri opnunartíma. Í tillögunni segir að væntar tekjur muni jafnast út á móti auknum rekstrarkostnaði. 

Tillagan var lögð fram af Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum. 

Í greinargerð með tillögunni er lögð fram bókun þar sem fulltrúar menningar- og íþróttaráðs fagna lengri breytingunni.

Segir þar jafnframt að tillagan taki mið af lögfestum útivistartíma barna og ungmenna sem hefur „mikilvægt forvarnargildi og stuðlar að heilbrigðri samveru fjölskyldu og vina“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert