Nemendur greiða fyrir rafmagnið með dósum

Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands gripu til þess ráðs að hjálpa skólanum að greiða rafmagnsreikninginn með dósasöfnun. Ljósið logar því enn í kennslustofum skólans.

Þetta segir Katrín Eir Ásgeirsdóttir, formaður nemendafélags skólans, í samtali við mbl.is.

Kvik­mynda­skóli Íslands hef­ur verið rek­inn með halla lengi og til­kynnti skól­inn um gjaldþrotameðferð í lok mars­mánaðar.

Náðu að safna 49 þúsund krónum

„Við ákváðum að safna saman dósum til að hjálpa við að borga reikning skólans,“ segir Katrín og nefnir að hópurinn hafi náð að safna 49 þúsund krónum.

Þá vandar hún kveðjurnar til hins nafnlausa manns sem var fljótur að gefa hópnum tvo af sínum eigin pokum þegar hann heyrði hvað hópurinn væri að reyna að greiða fyrir.

Frekari söfnunaraðgerðir í vinnslu 

Aðspurð segir hún kennslu enn vera í gangi, en hún var einmitt sjálf stödd í skólanum þegar blaðamaður náði tali af henni.

„Þetta hjálpar eitthvað til og það er allavega enn þá ljós hér.“

Katrín nefnir að lokum að frekari söfnunaraðgerðir séu í vinnslu hjá nemendum skólans.

Höfnuðu boði mennta- og barnamálaráðuneytisins

Greint var frá því í gær að nemendurnir hefðu hafnað boði mennta- og barnamálaráðuneytisins um að ljúka námi sínu við Tækniskólann, í kjölfar fundar með stjórnendum skólans.

Þeir hafa kallað eftir því að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, endurskoði tillögu sína.

Í viðtali við mbl.is í síðustu viku sagði Katrín einnig að nemendur skólans myndu heldur vilja sjá Rafmennt – sem sinnir fræðslu fyrir raf- og tækniiðnaðinn á Íslandi – taka yfir rekstur skólans, frekar en að þeir kláruðu nám sitt í Tækniskólanum.

Katrín Eir Ásgeirsdóttir, formaður KÍNEMA, nemendafélags Kvikmyndaskóla Íslands.
Katrín Eir Ásgeirsdóttir, formaður KÍNEMA, nemendafélags Kvikmyndaskóla Íslands. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert