Rekstrarniðurstaða Eflingar jákvæð um 1,3 milljarða

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Ólafur Árdal

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir viðsemjendur stéttarfélagsins hafa leitað allra leiða til að komast hjá því að greiða að fullu þær launahækkanir sem samið var um í stöðugleikasamningunum á síðasta ári.

Hún segir Eflingarfólk bera mesta ábyrgð í þjóðfélaginu. Raunveruleg auðsköpun verði til með vinnu verkafólksins, sem noti bæði vöðvaafl og vitsmuni til að halda uppi grundvallarkerfum landsins á almenna og opinbera vinnumarkaðinum.

Þetta kemur fram í formannsávarpi hennar í ársskýrslu Eflingar.

„[V]ið framleiðum verðmætin og búum til hagvöxtinn, sem allt samfélagið nýtur svo góðs af. Við í Eflingu setjum fram einbeitta og háværa kröfu um að þessi staðreynd fáist viðurkennd,“ segir í ávarpinu.

„Við erum vinnuafl höfuðborgarsvæðisins – okkar vinna skapar verðmætin og knýr áfram hagvöxtinn. Það er því óþolandi að sjá bæði almenna og opinbera viðsemjendur félagsins ganga á bak gerðum samningum við okkur.“

Í tilkynningu Eflingar um ársskýrsluna kemur jafnframt fram að kostnaður hafi fylgt verkefnum Eflingar á síðasta ári. Alls hafi þó rekstrarniðurstaðan verið jákvæð um tæpa 1,3 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert