Íslenska sendiráðið í Ósló hefur nú uppi áform um að selja virðulegan sendiherrabústaðinn á Bygdøy sem fylgt hefur sendiherraembætti Íslands í Noregi um árabil, allt frá árinu 1952.
Uppsett verð fyrir fasteignina er 75 milljónir norskra króna, jafnvirði tæps milljarðs íslenskra króna, 952 milljóna.
Frá þessu greinir norska viðskiptavefritið E24 og fylgir sögunni að sala bústaðarins sé í sparnaðarskyni og verði arftakinn ódýrari fasteign í miðbæ Óslóar. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem hugað hefur verið að því að selja bústaðinn, það var síðast reynt í bankahruninu árið 2008, en kaupandi fannst ekki.
„Íslenska utanríkisráðuneytið hyggst minnka við sig úr stórum, dýrum og viðhaldsfrekum einbýlishúsum niður í minni íbúðir sem ódýrari eru í rekstri og viðhaldi,“ segir í skriflegu svari sendiráðs Íslands í Ósló til E24 og er því aukið við frásögnina að sendiráðið hafi raunar þegar fest kaup á íbúð miðsvæðis í norsku höfuðborginni. Séu öryggisstaðlar hennar burðugri en hússins á Bygdøy, en aðstaða öll til viðburðahalds jafn góð og gamla glæsihýsisins og getur sá sem hér skrifað vottað að aðstöðunni þar er hvergi ábótavant.
Sendiherrabústaðnum á Bygdøy er bundinn myllusteinn um háls við skráningu til sölu. Listinn yfir viðhald sem komið er að lokafresti er þó nokkur, 34 liðir, og má sem dæmi nefna að taka þarf öll þrjú baðherbergi hússins í gegn auk þess sem raflagnir hússins teljast á mörkum þess að vera í samræmi við lög og reglur.
Það er Michael R. Øistad, fasteignasali hjá Dyve og Partnere, sem hafa mun veg og vanda af sölu gamla sendiherrabústaðarins og kýs hann að tjá sig ekki um verkefnið við fjölmiðla.