Skjálfti upp á 3,7 í Ljósufjallakerfi

Skjálftarnir í Borgarfirði frá árinu 2021 hafa að mestu verið …
Skjálftarnir í Borgarfirði frá árinu 2021 hafa að mestu verið bundnir við afmarkað svæði við Grjótárvatn og Hítarvatn. mbl.is/Árni Sæberg

Skjálfti upp á 3,7 mældist við Grjótárvatn á Mýrum um klukkan átta í morgun. Upptök skjálftans eru í Ljósufjallakerfinu, eldstöðvakerfi sem teyg­ir sig frá Kolgrafaf­irði í vestri að Norðurá í Borg­ar­f­irði og dreg­ur nafn sitt af fjall­g­arðinum á Snæ­fellsnesi.

Fram kemur í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar að um sé að ræða stærsta skjálfta sem mælst hefur á þessu svæði síðan virkni hófst árið 2021.

„Skjálftar á þessu svæði eru nokkuð djúpir, yfirleitt á um 15-20 km dýpi. Engin önnur skjálftavirkni hefur fylgt í kjölfar þessa skjálfta. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð, meðal annars inni í Skorradal og í Borgarfirði.“

Tveir yfir fjórum við Bárðarbungu

Þá segir einnig að skjálftar hafi mælst rétt fyrir kl. 2 í nótt við Bárðarbungu. Mældust tveir skjálftanna 4,1 og 4,3 að stærð.

„Fáeinir minni eftirskjálftar hafa mælst. Engar tilkynningar bárust Veðurstofunni um að skjálftarnir hafi fundist í byggð. Skjálftar af þessari stærð eru vel þekktir í Bárðarbungu, en síðast urðu skjálftar af svipaðri stærð í mars síðastliðnum.“

Skjálftavirkni í Ljósufjallakerfinu hefur aukist frá árinu 2021 og á síðasta ári ákváðu sérfræðingar Veðurstofu Íslands að auka vöktun á svæðinu. Síðasta haust var mæli komið fyrir í Hítardal, nærri upptökum skjálftanna.

Virknin er að mestu á svæði í kringum þrjú vötn, Grjótárvatn, Háleiksvatn og Langavatn.

Upptök skjálftanna í morgun voru við Grjótárvatn.
Upptök skjálftanna í morgun voru við Grjótárvatn. Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert