„Það komu sérfræðingar að því að meta þetta, annars hefðum við aldrei tekið þessa ákvörðun nema af því að fólki sem þekkir til leist vel á þetta,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is, og vísar í þá ákvörðun borgarinnar að flytja starfsemi Smiðju og Opus vinnu- og virknimiðstöðva um húsnæði.
Starfsfólk úrræðanna og aðstandendur þjónustunotenda hafa lýst yfir miklum áhyggjum af flutningunum og afleiðingum þeirra, bæði á starfsemina og velferð þjónustunotenda.
„Okkar færustu sérfræðingar í þessum málaflokki eru búnir að skoða þetta og líst vel á. Við munum taka öllum ábendingum og aðlaga húsnæðið eftir þörfum. Það er að sjálfsögðu gott aðgengi, það er lyfta í húsnæðinu, það verða settar rennur í loft og allt verður gert til að reyna að gera þetta sem best.
Við vorum í raun og veru mjög spennt fyrir þessu húsnæði, fólki líst það vel á þetta að við teljum þetta vera mjög jákvæðar breytingar,“ segir Rannveig um gagnrýni ákvörðunarinnar.
Hvers vegna var þessi ákvörðun tekin?
„Mér sýnist vera einhver misskilningur þarna á ferðinni. Smiðja, vinna og virkni fyrir fatlaða, hefur verið í Bæjarflöt til margra ára en við vorum að missa það húsnæði. Þetta var leiguhúsnæði sem borgin var með.
Þá fórum við að grennslast fyrir um nýtt húsnæði og gátum fengið þetta húsnæði við Skeifuna 8. Fagfólkið okkar fór og skoðaði þetta og leist afskaplega vel á, þetta er í raun og veru heppilegra húsnæði heldur en við erum búin að vera í, það er bjart og aðgengið er gott, og þess vegna var þessi ákvörðun tekin.
Við erum að fara þarna í mun stærra húsnæði heldur en við erum í núna, auk þess er annað virkniúrræði í Breiðholti, Opus, og ætlunin er ss. að það flytji þarna líka – án þess að það sé eitthvað sameinað Smiðju, heldur eru þetta aðskilin úrræði en þau verða á sama stað og rúmast mjög vel af því að húsnæðið er það stórt.“
Er ætlunin að aðlaga húsnæðið eftir þjónustuþörfum hópsins?
„Já, við erum að skoða það. Flutningar eru áætlaðir þarna um mánaðamótin maí/júní þannig að við höfum tíma til að breyta og aðlaga rýmið að þessari þjónustu.
Þetta er auðvitað viðkvæmur hópur og við viljum vanda okkur við þetta. Það er verið að skipuleggja fundi með aðstandendum, notendum, starfsfólki og hagsmunasamtökunum og sú vinna fer fram núna á næstu dögum og vikum en við þurfum greinilega að leiðrétta einhvern misskilning sem hefur farið af stað.“
Aðspurð segir Rannveig markmiðið með umræddum fundum vera að fá ábendingar um aðlögun húsnæðisins og hvernig best megi nálgast flutningana og upplýsa fundargesti um hvað stendur til.
„Það sem við þurfum kannski sérstaklega að vanda okkur við er að koma til móts við þjónustunotendur og aðstandendur þeirra meðan á flutningum stendur, en við þurfum því miður að loka í nokkra daga á meðan flutningar standa yfir, og þá sérstaklega þá notendur sem enn búa í heimahúsum foreldra. Við heyrum í þjónustunotendum og aðstandendum um hvernig við getum best gert það,“ segir Rannveig og bætir við að þetta verði tekið fyrir á umræddum fundum.
Kom eitthvað annað húsnæði til greina?
„Það var náttúrulega margt skoðað, eignaskrifstofa borgarinnar er með okkur í þessu, en þetta var svona það sem talið var henta vel.“
Var leitað ráða fagaðila við ákvarðanatökuna?
„Algjörlega. Eins og ég segi erum við í samstarfi við eignaskrifstofuna við að finna húsnæði en svo fór fagfólk og sérfræðingar frá skrifstofu fötlunarmála og stjórnandi frá úrræðinu á staðinn.
Það komu sérfræðingar að því að meta þetta, annars hefðum við aldrei tekið þessa ákvörðun nema af því að fólki sem þekkir til leist vel á þetta.“
Nú hefur samskiptaleysi velferðarsviðs við aðstandendur þjónustunotenda verið gagnrýnt, þeir hafi ekki verið látnir vita af flutningunum og sjálfir orðið að leita frekari upplýsinga, hvernig svararðu þeirri gagnrýni?
„Ég get í sjálfu sér ekki svarað því öðruvísi en að það er leitt að þeir upplifi þetta svona og við getum alltaf gert betur. Við lærum af þessu og þurfum bara að vanda okkur betur.
Það er einn og hálfur mánuður í þetta enn þá og við verðum bara að vanda okkur eins og við getum þessar vikur.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.