Lítið er um skóga í Reykjavík í samanburði við aðrar evrópskar borgir. Þrátt fyrir það er heildarvirði skóga í Reykjavík metið á 576 milljarða íslenskra króna.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á vistkerfi skóga í Reykjavík. Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Arboriacultural Journal en að henni unnu Aaron Shearer, sérfræðingur hjá Landi og skógi, og Duncan Slater.
Greinin ber heitið „Characteristics and benefits of Reykjavik's urban forest Iceland“. Eins og titillinn gefur til kynna er fjallað um einkenni og kosti trjágróðurs í Reykjavík.
Skoðaðir voru 278 fjögur hundruð fermetra reitir í hverfum borgarinnar, almenningsgörðum, kirkjugörðum og skóglandi. Reitirnir voru valdir með handahófskenndu úrtaki.
Niðurstaða þeirra félaga leiddi til þess að heildarkrónuþekja væri 8,7%, með ±0,9% staðalfráviki. Er þetta marktækt minna en gengur og gerist í þéttbýlum á norðurhveli jarðar.
Í umfjöllun Lands og skógar um greinina segir að algengt sé í borgum að krónuþekjan sé fimmtán til tuttugu prósent.
„Þetta þýðir með öðrum orðum að trjágróður í Reykjavík telst lítill miðað við flestar evrópskar borgir, þótt mikilvægi þeirrar vistkerfisþjónustu sem tré og skógar veita sé síst minna í þessari norðlægu borg en öðrum suðlægri.“
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að heildarfjöldi trjáa í Reykjavík væru um 350 þúsund, með ±40.000 staðalfrávik, og miðast þéttleikinn þá við 71 tré á hektara.
Aðstandendur rannsóknarinnar töldu einnig vanta upp á fjölbreytni trjánna í borginni. Fundust aðeins 19 trjátegundir innan sýnareitanna þar sem fjórar ríkjandi tegundir voru með 78% hlutfall af heildinni. Þessar tegundir voru ilmbjörk, alaskaösp, sitkagreni og reyniviður.
„Þessi takmarkaða tegundafjölbreytni bendir til þess að borgarskóglendið skorti seiglu gagnvart vaxandi ógnum, bæði líffræðilegum ógnum eins og meindýrum eða sjúkdómum og annars konar ógnum eins og breyttu loftslagi,“ segir í umfjöllun Lands og skógar.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að rétt sé að stefna á 30% skógarþekju fyrir árið 2050 með áætlunum um kerfisbundna gróðursetningu þar sem um 35.000 tré yrðu gróðursett á ári.