Öllum börnum fæddum í júlí árið 2024 eða fyrr hefur verið boðin leikskólavist í Garðabæ. Yngstu börnum sem boðið hefur verið leikskólapláss eru átta mánaða gömul. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæ.
Í heild voru innrituð 235 börn á leikskóla bæjarins.
„Alls voru 235 börn innrituð og 200 flutningsbeiðnir afgreiddar. Öllum börnum fæddum í júlí 2024 eða fyrr var boðin leikskólavist,“ segir í tilkynningu.
„Við leggjum ríka áherslu á að þjónustan okkar sé sveigjanleg og í takt við þarfir fjölskyldna í bænum,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri í tilkynningu.
Þá kemur fram að hægt hafi verið að verða við fyrsta vali í flestum tilvikum og bjóða systkinum leikskólavist í sama skóla.
„Úrvinnsla úr boðnum plássum stendur enn yfir þar sem nokkrir foreldrar hafa ekki enn staðfest að þeir þiggi leikskólaplássið eða vilji flutning á milli skóla. Þeir eru hvattir til að ganga frá ákvörðun sinni sem allra fyrst. Að meðaltali bætast 20-25 börn við á biðlistann í hverjum mánuði og leikskólar Garðabæjar eru nú að mestu fullsettir, en laus pláss eru enn á ungbarnaleikskólanum Mánahvoli þar sem 55 börnum verður boðin dvöl til viðbótar.“
„Einnig stendur til að nýta rými í Litlakoti við Krakkakot á Álftanesi og fjölga plássum í 5 ára deild Sjálandsskóla í haust,“ segir í tilkynningu.