Yngstu börnin átta mánaða sem fá vist í Garðabæ

Garðabær hefur lokið innritun barna á leikskóla.
Garðabær hefur lokið innritun barna á leikskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öllum börnum fæddum í júlí árið 2024 eða fyrr hefur verið boðin leikskólavist í Garðabæ. Yngstu börnum sem boðið hefur verið leikskólapláss eru átta mánaða gömul. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæ. 

Í heild voru innrituð 235 börn á leikskóla bæjarins.  

„Alls voru 235 börn innrituð og 200 flutningsbeiðnir afgreiddar. Öllum börnum fæddum í júlí 2024 eða fyrr var boðin leikskólavist,“ segir í tilkynningu. 

„Við leggjum ríka áherslu á að þjónustan okkar sé sveigjanleg og í takt við þarfir fjölskyldna í bænum,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri í tilkynningu. 

Þá kemur fram að hægt hafi verið að verða við fyrsta vali í flestum tilvikum og bjóða systkinum leikskólavist í sama skóla.

Foreldrar hvattir til þess að ákveða sig 

 „Úrvinnsla úr boðnum plássum stendur enn yfir þar sem nokkrir foreldrar hafa ekki enn staðfest að þeir þiggi leikskólaplássið eða vilji flutning á milli skóla. Þeir eru hvattir til að ganga frá ákvörðun sinni sem allra fyrst. Að meðaltali bætast 20-25 börn við á biðlistann í hverjum mánuði og leikskólar Garðabæjar eru nú að mestu fullsettir, en laus pláss eru enn á ungbarnaleikskólanum Mánahvoli þar sem 55 börnum verður boðin dvöl til viðbótar.“

„Einnig stendur til að nýta rými í Litlakoti við Krakkakot á Álftanesi og fjölga plássum í 5 ára deild Sjálandsskóla í haust,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert