Erlendum föngum fjölgar meðan íslenskum fækkar

Fjöldi erlendra fanga tvöfaldaðist á árunum 2020 til 2024. Á …
Fjöldi erlendra fanga tvöfaldaðist á árunum 2020 til 2024. Á sama tímabili fækkaði íslenskum föngum um fimmtung. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Árni Sæberg

Bæði fjöldi og hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplána dóm á Íslandi hefur tvöfaldast frá árinu 2020, meðan Íslendingum sem afplána fer fækkandi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja til mælaborð til að sjá hvernig innflytjendahópum gengur að aðlagast á Íslandi.

Erlendum föngum í afplánun eða gæsluvarðhaldi hefur á árunum 2020-2024 fjölgað úr 27 í 59. Á sama tímabili hefur íslenskum föngum fækkað um fimmtung, úr 100 í 80. Þannig hefur hlutfall erlendra ríkisborgara í varðhaldi hækkað úr 21% í 42% á um fimm árum.

Þetta kemur fram í svörum Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálráðherra og Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálráðherra og Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður. Samsett mynd

„Mér finnst þetta bara vera sláandi,“ segir Diljá Mist í samtali við mbl.is, sem kveðst þó ekki geta bent á nákvæma skýringu fyrir þessari aukningu, en hefur þó sína getgátur.

Hún bendir þó á að hún hafi lagt fram þingmál sem gæti hjálpað við að skýra þessa aukningu.

Leggur til mælaborð

Þingmálið snýst um að koma upp mælaborði að norræni fyrirmynd sem geti gefið yfirlit yfir helstu mælikvarða til að fylgjast með og meta árangur af aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.

Þetta er annað sinn sem hún leggur þetta fram, en seinast lagði hún fram málið í september 2024, einum og hálfum mánuði áður en ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk. 

Hún segir þingmálið af norrænni fyrirmynd. „[Á mælaborðum í nágrannaríkjum] getur þú skoðað hvernig hver og einn innflytjendahópur aðlagast að samfélaginu,“ segir Diljá, „meðal annars með tilliti til refsitíðni“.

Þingmaðurinn bendir á að á danska aðlögunarmælaborðinu (Integrationsbarometer) megi sjá að tilteknir hópar innflytjenda brjóti tíðar af sér.

„Ég geri ráð fyrir því að það sama sé uppi á teningnum hér,“ segir hún en samkvæmt danska mælaborðinu eru það innflytjendur frá MENAPT-ríkjum (Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og Pakistan) sem brjóta oftast af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert