Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæður um 4,7 milljarða fyrir árið 2024. Er það viðsnúningur upp á 9,7 milljarða frá 2023.
Þetta segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en ársreikningur borgarinnar var lagður fyrir borgarráð í dag og vísað til borgarstjórnar.
Kemur þar fram að í fjárhagsáætlun ársins 2024 hafi verið gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta yrði jákvæð um 650 milljónir króna.
„Viðsnúning í rekstri A-hluta má meðal annars rekja til þess að tekjur jukust um 10,2% á meðan rekstrargjöld jukust aðeins um 7,6% án afskrifta og breytinga á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Þá lækkar lífeyrisskuldbinding A-hluta á milli ára og skilaði tekjufærslu að fjárhæð 847 milljónum króna. Fjárhagsáætlanir gengu að öðru leyti að mestu eftir,“ segir í tilkynningunni.
Þá var rekstrarniðurstaða A- og B-hluta borgarinnar fyrir árið 2024 samanlagt jákvæð um 10,7 milljarða króna sem er 14,1 milljarði betri niðurstaða en árið 2023.
„Það skiptir miklu máli að halda áfram að gera betur og forgangsraða fjárfestingum og þjónustu fyrir fólkið í borginni, fyrir sjálfbæra og réttláta framtíð okkar samfélags,” er haft eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur, borgarstjóra Reykjavíkur.
Segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta hafi verið 3 milljörðum krónum betri en áætlað var í fjárhagsáætlun ársins. Faxaflóahafnir, Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Strætó, ásamt A-hluta borgarinnar hafi öll skilað betri niðurstöðu en gert hafði verið ráð fyrir.
„Afkoma Orkuveitu Reykjavíkur var tæplega 3 milljörðum umfram áætlanir og afkoma Faxaflóahafna var 815 milljónum krónum umfram áætlanir sem má að miklu leyti rekja til aukinna tekna af hafnarþjónustu. Afkoma Félagsbústaða var undir áætlun þar sem matsbreytingar fjárfestingaeigna voru lægri en forsendur gerðu ráð fyrir en tekjur félagsins fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) voru hins vegar sterkari en áætlað hafði verið. Afkoma SORPU var undir áætlun sem má rekja til afskrifta umfram áætlanir.“
Þá lækkar skuldaviðmið A- og B-hluta á milli ára. Það var 104% í árslok 2024 en var 110% árið 2023. Skuldaviðmið A-hluta var 77% og lækkar um fimm prósentustig frá fyrra ári.
Í tilkynningunni kemur fram að ytra rekstrarumhverfi Reykjavíkurborgar hafi á undanförnum árum einkennst af þenslu á vinnumarkaði, þrálátri verðbólgu og háum vöxtum. Verðbólga hafi hjaðnað á árinu 2024 og samhliða því hafi Seðlabanki Íslands farið að lækka stýrivexti.
Samkvæmt Seðlabankanum sé þó verðbólguþrýstingur enn til staðar og kallar það á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við stýrivaxtaákvarðanir.
„Þróun næstu missera ræðst að mestu af því hversu vel gengur að ná niður verðbólgu og vöxtum án þess að kæla hagkerfið um of. Samið hefur verið til langs tíma við stóran hluta vinnumarkaðarins sem eykur fyrirsjáanleika í launaþróun. Sveitarfélögin studdu myndarlega við gerð kjarasamninga með lækkun gjaldskráa og þátttöku í gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Blikur eru á lofti í alþjóðlegum efnahagsmálum, bæði vegna tollaáætlana og stríðsátaka. Mikil óvissa ríkir um hvaða áhrif þessir þættir muni hafa á innlent hagkerfi.“
Þá segir í tilkynningunni að áskoranir borgarinnar séu nú m.a. vegna verkefna sem hafi verið flutt frá ríkinu til sveitarfélaga án þess að fullnægjandi fjármögnun hafi fylgt þeim. Náðst hafi áfangar í fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks er samið var um 0,22% hækkun á álagningarhlutfalli útsvars í árslok 2022 og síðan 0,23% hækkun í árslok 2023.
Niðurstaða skýrslu starfshóps ríkisins sýni þó að enn vanti upp á fulla fjármögnun málaflokksins til framtíðar.
Þá hafi í mars 2025 verið undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga vegna úrræða fyrir börn með fjölþættan vanda og uppbyggingar hjúkrunarheimila.
„Fjárfestingar ársins 2024 námu 20,7 milljörðum og einkenndust að miklu leyti af viðhaldsátaki í skólum og fjárfestingu í innviðum til að tryggja uppbyggingu húsnæðis. Fjárfestingar voru fjármagnaðar með lántökum að fjárhæð 16,2 milljörðum, annars vegar með útgáfu skuldabréfa og hins vegar með lántöku hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins.
Reykjavíkurborg áætlar að fjármagna fjárfestingar ársins 2025 með lántökum allt að 16,5 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að lántakan fari fram með útgáfu skuldabréfa á skuldabréfamarkaði, með beinni lántöku eða með öðrum hætti til að mæta fjárþörf borgarsjóðs á hverjum, tíma. Ákvörðun um fyrirkomulag hvers skuldabréfaútboðs er tekin í aðdraganda þess, meðal annars að teknu tilliti til lánskjara, stöðu framkvæmda og fjárþarfar á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.
Þá eru áfram gerðar ríkar kröfur um aðhald í rekstri í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025-2029. Segir að áætlunin byggi á grunni fjármálastefnu borgarinnar 2023-2027 með skýrum áherslum og markmiðum sem fylgt hefur verið fast eftir. Þá sýni mælikvarðar fjármálastefnunnar fyrir A-hluta hægfara bara og er gert ráð fyrir að markmiðum stefnunnar verði náð árið 2025.
„Reykjavíkurborg er sterkt sveitarfélag í örum vexti þar sem áhersla er á að skapa græna borg þar sem við öll getum fundið okkur stað og fundið að við skiptum öll máli,” er haft eftir borgarstjóra.
„Það er gleðilegt að sjá rekstur Reykjavíkurborgar þróast í betri átt en áætlanir gerðu ráð fyrir, ég vil þakka starfsfólki borgarinnar og félögum mínum í stjórn borgarinnar.”
Fyrri umræða um ásreikninginn 2024 verður í borgarstjórn þann 6. maí næstkomandi.