Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir engar vísbendingar um að rekstur borgarinnar sé á réttri leið, þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu. Sé litið fram hjá óreglulegum liðum í rekstrinum blasi við að reksturinn sé ósjálfbær.
„Jú, vissulega er rekstrarniðurstaðan jákvæð en ástæður þess þarf að ræða af heiðarleika. Hér voru óþarfa verkefni ekki aflögð og ónauðsynlegum stöðugildum ekki fækkað. Engar vísbendingar eru um hagræðingar í rekstri sem leiða til betri rekstrarniðurstöðu. Það eru þvert á móti heimilin í borginni sem hafa greitt upp óráðsíuna“, segir Hildur í samtali við Morgunblaðið.
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 var birtur í dag og reyndist rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð sem nemur 4,7 milljörðum króna, en til A-hluta telst sú starfsemi borgarinnar sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum.
Í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs kemur fram að niðurstöðuna megi rekja til aukinna tekna en tekjur hækkuðu um 18 milljarða milli ára eða sem nemur 10,2%, sem skýrist að mestu af auknum skatttekjum. Þá hafi hækkun útsvarsprósentu leitt til aukinna útsvarstekna sem nema fjórum milljörðum árið 2024.
„Ég vil sjá jákvæðan viðsnúning í rekstri sem skýrist af aukinni ráðdeild, ekki aukinni skattheimtu,“ segir Hildur.
Hún bendir á að þegar útsvarsprósentan var hækkuð jukust tekjur borgarsjóðs um fjóra milljarða með einu pennastriki.
„Þá hefur gríðarleg hækkun fasteignamats á kjörtímabilinu leitt til þess að heimilin og fyrirtækin í borginni greiða nú 8,2 milljörðum króna hærri fasteignaskatta og lóðarleigu en við upphaf kjörtímabils. Langeðlilegast hefði verið fyrir borgina að bregðast við hækkun fasteignamats með lækkun álagningarhlutfalla,“ segir hún.
Þá bendir Hildur á að jákvæða rekstrarniðurstöðu megi ekki síður rekja til óreglulegra liða á borð við einskiptistekjur og leiðréttar lífeyrisskuldbindingar.
„Ef við tökum þessa liði út úr jöfnunni þá reynist rekstrarniðurstaðan neikvæð sem nemur um átta milljörðum króna. Það liggur í augum uppi að grunnþjónustu borgarinnar verður að vera unnt að reka á grundvelli reglulegra tekna, ekki tekjum af eignasölu,“ segir Hildur.
Óreglulegir liðir sem Hildur vísar til eru leiðrétt lífeyrisskuldbinding, eignasala, sala byggingarréttar og arðgreiðslur en þessir liðir nema samtals ríflega 12,5 milljörðum króna.
Hildur segir nauðsynlegt að ráðast í frekari eignasölu, ekki síst hvað varðar fyrirtæki í eigu borgarinnar sem standi í samkeppnisrekstri.
„Við höfum lagt til sölu Ljósleiðarans, Malbikunarstöðvarinnar Höfða og bílastæðahúsa svo eitthvað sé nefnt. Tekjum af slíkri eignasölu væri eðlilegast að verja til niðurgreiðslu skulda eða innviðafjárfestinga, ekki til að plástra sárin í óábyrgum grunnrekstri“, segir Hildur jafnframt.
Hildur segir heilmikið svigrúm til að ráðast í skattalækkanir en tækifærin séu vannýtt. Skilgreina þurfi lögbundið hlutverk sveitarfélagsins.
„Við þurfum að einbeita okkur að grunnþjónustunni en skera önnur verkefni niður. Hér þarf að skerpa fókusinn svo koma megi höfuðborginni aftur í forystu,“ segir Hildur að lokum.