Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi þingflokks Flokks fólksins, telur að störf hans hjá flokknum og stjórnarseta hans í Ríkisútvarpinu ohf. komi ekki til með að valda hagsmunaárekstrum.
Í lögum um stjórn Ríkisútvarpsins kemur fram að stjórnarmenn félagsins megi ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf sem leitt geti til árekstra við hagsmuni Ríkisútvarpsins. Heimir, sem í vikunni var kjörinn í stjórnina, segir að þetta eigi ekki við um störf sín sem framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi þingflokks og þar með sem málsvari hans gagnvart fjölmiðlum.
„Það truflar [stjórnarsetu mína] ekki, ekki frekar en önnur störf annarra stjórnarmanna á öðrum vettvangi,“ segir Heimir í samtali við Morgunblaðið og bendir á að allir stjórnarmenn Ríkisútvarpsins séu með pólitíska skipan.
Síðan Heimir hóf störf hjá Flokki fólksins í febrúar hefur hann gagnrýnt fjölmiðla og fréttaflutning þeirra sem viðkemur flokknum. Setti hann meðal annars fram harðorða gagnrýni á Facebook-síðu sinni um fréttastofu RÚV og einstaka starfsmenn hennar í kringum afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur sem barnamálaráðherra. Þá hefur Heimir ítrekað lagt orð í belg og gert athugasemdir þegar blaðamenn ræða við ráðherra Flokks fólksins.
Heimir telur slíka gagnrýni og vinnubrögð ekki ganga gegn hagsmunum Ríkisútvarpsins.
„Það er ekkert sem segir að stjórnarmaður í stjórn RÚV geti ekki verið gagnrýninn á fréttaflutning RÚV og á starfsemi RÚV. Stjórnarmenn í RÚV eru einmitt þar til að vakta starfsemi félagsins,“ segir Heimir og bætir við:
„Fréttastofa Ríkisútvarpsins er sjálfstæð fréttastofa og stjórn Ríkisútvarpsins hefur engin afskipti af stjórn fréttastofu.“
En er þá eðlilegt að stjórnarmaður gagnrýni störf fréttastofunnar og einstakra starfsmanna hennar opinberlega?
„Já, ef þeir hafa unnið fyrir því þá er það alveg sjálfsagt að stjórnarmaður í RÚV geri það.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.