Enginn ráðherranna talaði við hjónin

Á fimmta tug mótmælenda létu sjá sig í gær fyrir …
Á fimmta tug mótmælenda létu sjá sig í gær fyrir utan fundaraðstöðu ríkisstjórnarinnar og sá enginn ráðherranna ástæðu til að gefa sig á tal við mótmælendur eða fósturforeldra Oscars. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gekk bara vel. Það voru ekkert margir sem komu, en þó góður hópur,“ segir Sonja Magnúsdóttir, fósturmóðir kólumbíska drengsins Oscars Andres Florez Botanegra sem vísað hefur verið frá landinu öðru sinni, um mótmæli sem í gær voru haldin á Hverfisgötunni við fundarstað ríkisstjórnarinnar til að knýja á um aðgerðir hennar í málum Oscars.

„Við sáum ráðherrana koma út af fundinum. Inga Sæland laumaði sér reyndar á bak við. Eins og hún er hugrökk að tala hélt ég að hún myndi koma og mæta okkur,“ segir Sonja af ríkisstjórninni sem fundaði á meðan mótmælendur fóru sínu fram á götunni og bætir því við að enginn ráðherranna hafi komið og rætt við mótmælendur né þau Svavar Jóhannsson, fósturforeldra Oscars.

Aðspurð telur Sonja að á fimmta tug mótmælenda hafi sótt fundinn og lagt lóð sitt á vogarskál þess að kólumbíska trengnum megi veitast varanlegt heimili á Íslandi þar sem hann býr hins vegar nú í skugga kvíða og daglegs ótta við að lögregla vitji hans til að senda hann á ný til Suður-Ameríkuríkis þar sem hann á það á hættu að verða fjörvi numinn vegna krafna mafíu nokkurrar sem fer með oddi og egg um þetta höfuðframleiðsluríki kókaíns í heiminum.

Ályktun kirkjunnar manna

Sonja kveðst ánægð með aðbúnað lögreglu á svæðinu sem hafi ýmsu tjaldað í nafni öryggis, þar á meðal fjölda ökutækja sinna og öryggisgirðingu. „Við fengum að heyra að þetta væri líka til að tryggja okkar öryggi [ekki bara ráðherranna] svo við gætum mótmælt á götunni,“ segir Sonja.

Séra Arna Grétarsdóttir las upp ályktun kirkjunnar manna um mál Oscars auk þess sem Guðrún Árný söngkona og Svavar Jóhannsson, eiginmaður Sonju og fósturfaðir Oscars, fluttu ávörp sín.

Oscar, Sonja og Svavar hafa ekki heyrt frá neinum ráðherra ríkisstjórnarinnar um málið, en á mánudaginn sendi fjölskyldan Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, bréf og beiddist þess að ráðuneyti hans tæki málið upp á sína arma. Hvorki ráðherra né nokkur á vegum ráðuneytis hans hafa látið í sér heyra síðan.

Sonja segir Útlendingastofnun í mótsögn við sjálfa sig í máli fóstursonar hennar. „Af því að [Oscar] sótti ekki um aðstoð við sjálfviljuga brottför sína fær hann ekki frest. Þeir segjast ekkert sjá við hans aðstæður sem réttlæti endurskoðun,“ segir hún, en kólumbísk lögregluyfirvöld hafa staðfest að þeim sé kunnugt um að Oscar og blóðforeldrar hans sæti líflátshótunum þar í landinu auk þess sem sömu yfirvöld hafa gefið það út að þau geti ekki veitt drengnum þá vernd sem nægi.

Ráðherra átti sig ekki á stöðunni

„Þarna er verið að taka barn úr ofbeldissambandi við föður, henda honum í hendurnar á íslenskri fósturfjölskyldu þar sem hann er í marga mánuði. Svo er hann rifinn út úr þeim aðstæðum og hent út í óvissuna og svo á að fara að gera það aftur,“ segir Sonja frá og telur mótsagnir í úrskurðum yfirvalda.

Þá segir hún dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, ekki átta sig á stöðunni. „Málið snýst um að Kólumbía er hættulegt land þar sem verið er að ræna unglingsstrákum og setja þá í skæruhernað,“ segir Sonja, „Svo er öll fjölskyldan á dauðalista hjá glæpagengi þannig að Oscar verður drepinn um leið og þeir komast að því að hann er kominn til Kólumbíu.“

Segir hún ráðherra ekki taka tillit til þess að Oscar og öll fjölskyldan þurfi að engjast í kvíða og ótta þangað til Útlendingastofnun er búin að ganga úr skugga um að hann verði öruggur sem tekið gæti marga mánuði „og við eigum bara öll að setja okkar líf á „hold“ á meðan og bíða aftökunnar. Tillitsleysið og virðingarleysið fyrir heilsu barns og okkar allra er meira en orð fá lýst. Þetta er svo mikil grimmd sem hún sýnir okkur. Spurning hvort hún talaði svona ef hennar barn ætti í hlut,“ segir Sonja Magnúsdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert