Afleiðingarnar að koma í ljós

Umdeildur arftaki könnunarprófanna er ekki tilbúinn. Enda var notast við …
Umdeildur arftaki könnunarprófanna er ekki tilbúinn. Enda var notast við gömul samræmd próf, sem börn þreyta nú annars aldrei. mbl.is/Karítas

Nemendur í 7. bekk Breiðholtsskóla standa mun verr en jafnaldrar þeirra gerðu fyrir fimm árum. Mestur er munurinn í íslensku, en frammistaða þeirra í stærðfræði er sömuleiðis marktækt lakari en frammistaða jafnaldra þeirra árið 2020.

Þetta sýna niðurstöður prófa sem lögð voru fyrir árganginn í mars, að beiðni foreldra nemenda í ljósi þess ófremdarástands sem ríkt hefur innan veggja skólans og Morgunblaðið greindi frá fyrr á árinu.

Niðurstöðurnar skera sig úr

Frammistaða nemenda í Breiðholtsskóla frá aldamótum hefur yfirleitt verið í kringum landsmeðaltal. Aftur á móti þykja nýjustu niðurstöðurnar skera sig úr þegar litið er yfir allt það tímabil, að því er segir í skýrslu menntamálayfirvalda sem ekki hefur verið gerð opinber.

Þetta er í fyrsta sinn sem ljósi er varpað á hvernig viðvarandi ofbeldisvandi innan skólans, sem menntamálayfirvöld Reykjavíkurborgar létu sér fátt um finnast áður en flett var ofan af honum á síðum Morgunblaðsins og mbl.is, hefur bitnað á nemendum árgangsins.

Gripið hefur verið til fjölda aðgerða í kjölfarið.

Námsgeta íslenskra barna er í frjálsu falli í alþjóðlegum samanburði. …
Námsgeta íslenskra barna er í frjálsu falli í alþjóðlegum samanburði. Stjórnvöld hafa með engum hætti brugðist við þeirri þróun. mbl.is/Karítas

Enn beðið eftir umdeildum arftaka

Ein ástæða þess að staða nemendanna skýrist fyrst nú er að ekkert heildstætt innlent samræmt mat hefur farið fram á námsgetu íslenskra barna í fleiri ár, eða frá því Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, ákvað að fresta samræmdu könnunarprófunum árið 2021.

Flokksbróðir hennar, Ásmundur Einar Daðason, viðhélt frestuninni alla sína ráðherratíð og vildi raunar afnema prófin. Umdeildur arftaki könnunarprófanna, svokallaður matsferill, hefur enn ekki að fullu litið dagsins ljós.

Þó eru hafnar prófanir á honum, en innleiðingu hans var flýtt í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is á síðasta ári.

Gripu í gömul próf

Enda ákváðu Reykjavíkurborg og mennta- og barnamálaráðuneytið að grípa til gamalla samræmdra könnunarprófa, frá árunum 2019 og 2020, þegar látið var undan þrýstingi og staða barnanna í Breiðholtsskóla könnuð.

Til prófs var námsefni síðustu þriggja ára en þess ber að geta að börnin voru búin sérstaklega undir prófin.

Sömuleiðis ber að geta þess að niðurstöðurnar þurfa ekki endilega að endurspegla einvörðungu þróun til hins verra innan veggja Breiðholtsskóla.

Námsgeta íslenskra barna er í frjálsu falli í alþjóðlegum samanburði, eins og niðurstöður PISA-kannana hafa sýnt, nú síðast í desember árið 2023.

Síðan er liðið nær hálft annað ár. Og enn hafa stjórnvöld ekki brugðist við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert