Átök milli Indlands og Pakistan í Kasmír-héraði hafa að undanförnu stigmagnast verulega og óttast er að ekki sé langt í hernaðarátök milli landanna. Átökin eru þó ekki ný af nálinni og má rekja þau áratugi aftur í tímann.
Að sögn alþjóðastjórnmálafræðingsins Magneu Marinósdóttur má rekja upphaf átaka til þess tíma er Indland og Pakistan voru undir stjórn breska heimsveldisins.
Á þeim tíma hafi verið rúmlega 500 konungdæmi, furstadæmi og ríki sem höfðu sjálfstjórnarrétt.
„Kasmír var furstadæmi undir stjórn Hari Singh, sem var hindúi, en meirihluti íbúa voru múslimar,“ segir Magnea í samtali við mbl.is.
Það hafi svo verið árið 1947, þegar breska heimsveldið lét af stjórn á Indlandi, að landinu var skipt í tvö ríki: Indland, þar sem hindúar voru í meirihluta, og Pakistan, þar sem múslimar voru í meirihluta. Þeir sem voru við völd hafi þá haft nokkuð val um hvoru ríkinu þeirra konungs- eða furstadæmi myndi tilheyra.
Segir Magnea hins vegar Hari Singh hafa verið óákveðinn um hvort Kasmír skyldi ganga til liðs við Indland eða Pakistan sem leiddi til þess að vopnaðar sveitir frá Pakistan réðust inn í héraðið til að þrýsta á um sameiningu við Pakistan.
Leitaði þá furstinn á náðir Indlands um herstuðning og að undirlagi ríkisstjóra breska heimsveldisins á Indlandi, Louis Mountbatten, var undirritaður sameiningarsamningur sem gerði Kasmír að hluta Indlands.
Indverski herinn var sendur inn í héraðið og hófust þar með fyrstu vopnuðu átök ríkjanna. Þau stóðu til ársins 1949 og lauk með vopnahléi með aðkomu Sameinuðu þjóðanna sem hvöttu til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð héraðsins. Sú atkvæðagreiðsla hefur hins vegar aldrei farið fram.
Eftir vopnahléið var Kasmír-héraði skipt í tvennt: Indland tók yfir tvo þriðju hluta þess og Pakistan norðurhlutann, en einnig hefur Kína yfirráð yfir nokkrum landsvæðum við eigin landamæri.
Segir Magnea indverska hluta Kasmír-héraðs samanstanda af Ladahk-ríki þar sem meirihluti íbúanna eru búddistar, eða tæplega 80%, og síðan múslimar og hindúar. Hinn hlutinn sé Jammu- og Kasmír-ríki þar sem íbúar eru nær eingöngu múslimar.
Sem viðleitni til að halda friðinn hlaut síðarnefnda ríkið sérstaka stöðu skv. 370. gr. stjórnarskrár Indlands sem kveður á um sjálfsforræði umfram önnur ríki og sjálfsstjórnarhéruð (union territories) Indlands. Jammu- og Kasmír-ríki höfðu því meðal annars eigin stjórnarskrá, fána og hegningarlög og deildu ríkin völdum með setu stjórnvalda í báðum höfuðborgunum Srinagar og Jammu.
Þrátt fyrir það blossaði upp annað stríð milli Indlands og Pakistan vegna Kasmír árið 1965 sem lauk án samkomulags. Það hafi svo verið eftir stríðið árið 1971, þegar Indland varð bandamaður Bangladess í frelsisstríði þeirra gegn Pakistan, sem lauk með því að Austur-Pakistan varð sjálfstæða ríkið Bangladess árið 1972, að Indland og Pakistan skrifuðu undir hið svokallaða Simla-samkomulag.
Þar er meðal annars kveðið á um að leysa skuli Kasmír-deiluna með tvíhliða viðræðum, án aðkomu þriðja aðila, svo sem Sameinuðu þjóðanna.
„Síðan þá hefur ágreiningurinn að stórum hluta verið fólginn í því að Pakistan vill þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarstöðu Kasmír-héraðs enda alltaf haldið því fram að Kasmír hefði átt að vera hluti af Pakistan vegna þess að meirihluti íbúanna eru múslimar. Indland er með þá afstöðu að það eigi ekki að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla,“ segir Magnea og nefnir að Indland vísi til þess að íbúarnir séu indverskir þegnar sem taki þátt í kosningum þar í landi og vísað sé jafnframt til Simla-samkomulagsins um að ágreining um héraðið skuli leysa með samningaviðræðum.
Að sögn Magneu jókst spennan milli ríkjanna verulega eftir að Narendra Modi var kjörinn forsætisráðherra Indlands árið 2014. Modi leiðir indverska þjóðernisflokkinn Bharatiya Janata, sem aðhyllist þjóðernishyggju á grunni hindúisma.
Þá sé flokkurinn stjórnmálavængur þjóðernishreyfingarinnar Rashtriya Swayamsevak Sang (RSS) sem varð til árið 1925 og barðist fyrir sjálfstæði Indlands.
„Þegar hann verður forsætisráðherra árið 2014 er hann með það sem kosningaloforð að afnema sérstaka stöðu Jammu og Kasmírs.“
Samkvæmt Magneu var sjálfsforræði Jammu- og Kasmir-ríkis afnumið árið 2019 með því að fella úr gildi 370. grein stjórnarskrárinnar. Þar með urðu Jammu og Kasmír að hefðbundnu sambandssvæði (Union Territory) undir beinni stjórn Nýju Delí en alls eru 28 ríki og átta sambandssvæði innan Indlands.
Segir Magnea muninn vera sá að þeim síðarnefndu er stjórnað af héraðs- eða ríkisstjóra sem er skipaður beint af forseta landsins en ekki kosinn eins og á við um ríkin sem hafa sín eigin þing og sveitastjórn.
„Þetta er gert einhliða án samráðs við íbúana og án samráðs við Pakistan sem í raun er brot á Simla-samningunum,“ segir Magnea.
„Modi fer að heimila fólki að flytja þarna og setjast að og rýmir heimildir til landakaupa. Hann fer að raska þessu jafnvægi sem ríkti. Þarna upplifir meirihlutinn, múslimar, að það sé verið að reyna að breyta íbúasamsetningunni og þar með vega að þeim. Að þetta sé aðför að þeirra tilverurétti í Jammu-Kasmír.“
Óttinn er ekki ástæðulaus að mati Magneu sem bendir á hina útilokandi þjóðernishyggju sem flokkur Modi stendur fyrir. Bendir hún jafnframt á að þegar Modi var ríkisstjóri í Gujarat-ríki hafi múslimum verið kennt um bruna sem kom upp í lest í ríkinu og leiddi til andláts 58 hindúa.
Í kjölfarið hafi á milli eitt til tvö þúsund múslimar verið myrtir í árásum hindúa. Einnig lögðu um 150 þúsund múslimar á flótta eftir að eldur var lagður af heimilum þeirra og moskum. Segir Magnea Modi hafa verið sakaðan um að kynda undir árásirnar og að málið hafi verið rannsakað en ekki taldar nægar sannanir til að fá hann dæmdan.
„Þetta er samhengið sem afturköllun sjálfsforræðis Jammu og Kasmír 2019 á sér stað innan.“
Þá segir Magnea breytingunni hafa verið friðsamlega mótmælt og að tugir einstaklinga og samtaka hafi sent ákall til hæstaréttar Indlands um að afturkalla hana á grundvelli þess að hún væri ólögmæt. Á sama tíma, eða í október 2019, hafi svo sprottið fram samtökin The Resistance Front, eða Andspyrnufylkingin, en þau hafa lýst sig ábyrg fyrir morðunum á ferðamönnunum í Pahalgam í Kasmír sem áttu sér stað núverið.
Segir Magnea ríkisstjórn Modi hafa skilgreint Andspyrnufylkinguna sem hryðjuverkasamtök árið 2023, eða sama ár og hæstiréttur Indlands staðfesti lögmæti ákvörðunar Modi sem hafði verið mótmælt af fjölda manns.
Andspyrnufylkingin er talin vera tengd Lashkar-e-Taiba (LeT), hryðjuverkasamtökum með rætur í Pakistan en Magnea segir fátt vera vitað um Andspyrnufylkinguna sem sé nokkurs konar hulduher með engan sýnilegan leiðtoga og aðsetur uppi í fjöllunum í kring.
„Þeir fóru að gera fyrstu árásirnar árið 2020 og þá voru það frekar tiltekin skotmörk, t.d. aðilar tengdir hernum, leyniþjónustu eða indverskum stjórnvöldum í Jammu og Kasmír.“
Nú hins vegar virðist sem samtökin séu farin að beina árásum að óbreyttum borgurum eftir að liðsmenn þeirra drápu 26 ferðamenn sem er mesta mannfall í einni árás sl. 25 ár í héraðinu.
Í kjölfarið hefur spennan á ný aukist milli ríkjanna. Indland hefur boðað að það hyggist tímabundið segja upp vatnssamningi frá 1960, sem felur í sér gagnkvæma aðstoð ríkjanna við vatnsmiðlun á Himalaja-svæðinu. Pakistan hefur lýst því yfir að slíkt yrði túlkað sem stríðsaðgerð sem yrði svarað af fullum þunga. Einnig hefur Pakistan hótað að segja upp Simla-samkomulaginu frá 1972.
„Það má vissulega segja að með þessum árásum hafi orðið rosaleg stigmögnun, sem hefur ekki gerst lengi. Það kemur auðvitað til út af aðgerðunum sem má rekja til 2019 og þessum morðum sem hafa átt sér stað núna,“ segir Magnea.
Bæði ríkin búa yfir kjarnorkuvopnum og hefur innviðaráðherra Pakistans, Hanif Abbasi, varað Indland við því að kjarnorkuvopnaforði landsins sé ekki til sýnis og sagt að langdrægum eldflaugum Pakistans, sem bera kjarnorkusprengjur, væri öllum „miðað á Indland.“
Aðspurð segist Magnea ekki telja líklegt að ríkin beiti kjarnorkuvopnum, þar sem slíkar árásir væru í raun sjálfsvígsaðgerðir.
„En mér finnst ekki ólíklegt að það geti komið til einhverra vopnaðra átaka á milli Indlands og Pakistan.“
Um viðbrögð alþjóðasamfélagsins ef til vopnaðra átaka kæmi milli landanna segir Magnea að til átaka hafi komið í gegnum tíðina á milli Kína og Indlands, en aldrei á milli Kína og Pakistans. Pakistan kaupi einnig vopn frá Kína þannig að líklega myndi Kína í þeim aðstæðum taka sér stöðu við hlið Pakistans.
Hins vegar væru Bandaríkin líklegri til að taka sér stöðu við hlið Indlands sem og önnur vestræn ríki.
„Sérstaklega þegar litið er til þess hver forseti Bandaríkjanna er í dag. Þá á hann augljóslega eftir að taka upp málstað Modi,“ segir Magnea og bætir við:
„En auðvitað munu ríki koma til sögunnar og reyna að miðla málum til að koma í veg fyrir að komi til vopnaðra átaka.“
Að lokum bendir Magnea á að kjarni málsins sé sú staðreynd að enn sé verið að kalla eftir varanlegri lausn á þeim átökum sem hafa geisað í suðurhluta Kasmírs-héraðs í áratugi.
„Það er áhugavert að sjá hversu mikið af átökum í dag má rekja til þess að ríki eru fyrrum nýlendur og átökin stafa af því hvernig málin voru leyst, eða öllu heldur ekki leyst.“