Staða alþjóðamála og aukið samstarf á sviði varnarmála voru meðal umræðuefna í reglulegu tvíhliða pólitísku samráði Íslands og Bretlands sem fram fór í Lundúnum í síðustu viku, að segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Rætt var um tækifæri til aukins tvíhliða samstarfs ríkjanna, s.s. vísindasamstarf, og aukið samstarf á sviði varnarmála, einkum á norðurslóðum. Málefni Úkraínu voru sömuleiðis til umræðu sem og áskoranir á vettvangi alþjóðastofnana og samstarf á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf, en Ísland tók sæti í ráðinu um síðustu áramót. Þá voru málefni Mið-Austurlanda, norðurslóða og Kína einnig til umræðu.
Árlegu samráði ríkjanna var hleypt af stokkunum árið 2019, en Bretland er eitt af nánustu samstarfsríkjum Íslands bæði á hinu pólitíska sviði og í varnarmálum.
Anna Hjartardóttir, varaskrifstofustjóri skrifstofu alþjóðapólitískra málefna og Jónas Allansson, skrifstofustjóri varnamálaskrifstofu, leiddu sendinefnd Íslands. Ruth Wiseman, yfirmaður Norður- og Mið-Evrópumála í breska utanríkisráðuneytinu, fór fyrir heimafólki í Lundúnum.