Einkanúmerið V 279 er orðið eitt hið þekktast á landinu eftir að njósnamál sem tengist Vilhjálmi Bjarnasyni komst í hámæli. Hann fékk sér númerið á sínum tíma til að koma sér undan stöðumælasektum.
Þetta upplýsir Vilhjálmur í Spursmálum þegar talið berst að einkanúmerinu á bifreið hans.
Tilurð númersins má rekja aftur til ársins 1981 þegar hann keypti sér Saab 99. Fékk hann að velja skráningarnúmer og varð þá 279 fyrir valinu.
„Þá bjó ég úti í Vestmannaeyjum og fékk númerið V 1605. Og þegar ég kem út til Eyja þá get ég valið þarna úr númerum í skúffunni. Það er V 130, V 155 og V 279 og ég er dálítið, vil hafa tölur í lagi og hugsa mikið í heilum veldum af tölum, t.d. heilu veldi af tveimur og heilu veldi af þremur og summu heilla velda þannig að ég hér, já ég ákvað að taka 279.“
En þá er ekki öll sagan sögð því Vilhjálmur bætir við:
„Og glotti og segi já, lögregluþjónar og stöðumælaverðir í Reykjavík þekkja ekki muninn á V og Y. Og þegar bíllinn er í Reykjavík þá trúir því ekki nokkur maður að Vestmannaeyingur sé í Reykjavík þannig á þá er þetta Y 279 og þá mun Jónas Haralz greiða stöðumælasektir fyrir mig.“
Og hvar hann með Y 279?
„Hann var með Y 279 og þannig hef ég haldið þessu númeri.“
Það verður að teljast kaldhæðni örlaganna að bankinn sem Jónas heitinn stýrði á sínum tíma er einmitt sá sem varð bitbein Vilhjálms Bjarnasonar og Björgólfs Thors og leiddi til þess að njósnir voru gerðar út gegn þeim fyrrnefnda á árinu 2012.
En þegar þáttarstjórnandi telur að þá sé sagan öll tekur Vilhjálmur til við að útskýra enn nánar þá talnaspeki sem lá að baki valinu á númerinu. Einhverjir kunna að hafa týnt þræði. Það sést að minnsta kosti að slíkt getur hent bestu menn.
Viðtalið við Vilhjálm má svo sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan: