Jarðskjálfti að stærð 4,8 mældist í Bárðarbungu um korter yfir níu í kvöld. Honum hafa fylgt nokkrir eftirskjálftar en engin merki hafa verið um gosóróa.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni fannst skjálftinn meðal annars í Suðursveit.
Síðast mældist skjálfti á svæðinu rétt eftir klukkan 5.30 í morgun, en sá var að stærð 3,5.
Skjálftavirkni hefur aukist nokkuð í Bárðarbungu síðasta árið en í ár eru tíu ár síðan gosinu í Holuhrauni lauk.
Jarðskjálftar eru algengir í Bárðarbungu en síðast varð skjálfti af svipaðri stærðargráðu þann 22. febrúar og var sá að stærð 5,15.
Fréttin hefur verið uppfærð.