Stórir árgangar í öðrum skólum gætu staðið illa

Hildur segir mikilvægt að hafa einhvern samanburð til að geta …
Hildur segir mikilvægt að hafa einhvern samanburð til að geta gripið til aðgerða ef þörf krefur. Samsett mynd/Karítas

„Þess­ar niður­stöður eru auðvitað veru­legt áhyggju­efni og vont að það hafi þurft að hafa sérstaklega fyrir því að fá þær fram í dagsljósið. Maður hef­ur áhyggj­ur af því að í fleiri skól­um séu stór­ir ár­gang­ar barna sem standi illa.“

Þetta segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um niðurstöður prófa í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir börn í 7. bekk í Breiðholtsskóla í mars, til að kanna hvar þau stæðu námslega eftir að mikill ofbeldisvandi fékk að grassera í skólanum um árabil. Greint var frá niðurstöðunum í Morgunblaðinu í dag.

Óttuðust foreldrar að ofbeldisvandinn væri að koma niður á kennslunni í árganginum og kölluðu eftir að námsmat yrði lagt fyrir. Niðurstöðurnar draga upp dökka mynd af stöðu nemendanna í íslensku og stærðfræði þar sem frammistaða þeirra er mun lakari en frammistaða jafnaldra þeirra var á landsvísu árið 2020. Ekki eru til nýrri viðmið þar sem engin samræmd könnunarpróf hafa verið lögð fyrir nemendur í grunnskólum frá árinu 2020.

Þá var líka töluverður munur á milli skólaeinkunna, sem kennarar í Breiðholtsskóla hafa gefið börnunum í árganginum, og einkunna úr prófunum. Faðir stúlku sem var í árganginum sagði í samtali við Morgunblaðið að það virtist vera „mikil fölsun í gangi“ og að verið væri að gefa nemendum of háar einkunnir miðað við þekkingu þeirra á námsefninu.

Skiptir miklu máli að hafa samanburðartölur

Hildur vill að borgin ráðist í samræmt námsmat í öllum grunnskólum borgarinnar í 4., 7. og 10. bekk.

„Þannig gætum við fengið samanburð á því hvar skólarnir standa og hvar er hugsanlega nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Við eigum að setja grunnskólann okkar í meiri forgang og ég myndi vilja sjá miklu meiri metnað í skólamálum.“

Með réttum aðgerðum og skýrum mælikvörðum verði hægt að koma skólakerfinu okkar í fremstu röð innan einhverra áratuga.

Líkt og áður sagði hafa samræmd könnunarpróf ekki verið lögð fyrir frá árinu 2020 en umdeildur arftaki prófanna, svokallaður matsferill, hefur enn ekki litið dagsins ljós að fullu. Þó eru hafnar prófanir á honum og var innleiðingu flýtt í kjölfar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins á síðasta ári.

Þá hafa heldur ekki fengist sundurliðaðar upplýsingar úr Pisa-könnunum til að meta hvar nemendur standa. Hildur segir að lögð hafi verið áhersla á að fá þær niðurstöður sundurliðaðar eftir skólum en það hafi ekki tekist

„Auðvitað skiptir máli að við höfum þessar samanburðartölur og að við metum stöðu nemenda í grunnskólum borgarinnar. Börnin okkar eiga það skilið að við tryggjum þeim bestu mögulegu menntun og að við metum hvar skólarnir standa til að við vitum hvar þarf að ráðast í úrbætur.“

Vandinn greinilega nokkuð víðtækur

Hvað varðar misræmi á milli skólaeinkunna, sem kennarar hafa gefið börnunum, og niðurstaðna úr prófunum, segir Hildur að það þekkist að skólar gefi mismunandi einkunnir. Það sjáist til að mynda við inntöku í framhaldsskóla að einkunnaverðbólga myndist í sumum skólum en ekki öðrum.

„Nemendur eru þá ekki að keppa á jafningjagrundvelli um eftirsótta menntaskóla. Þessu þarf að breyta og það er algjörlega nauðsynlegt að fara aftur af stað með samræmt námsmat í öllum grunnskólum borgarinnar og landsins auðvitað helst.“

Varðandi þennan skóla sérstaklega, það hefur verið þarna ákveðið vandamál sem mikið hefur verið fjallað um og gripið til einhverra aðgerða, en er hægt að gera eitthvað til að bæta nemendum þennan skaða?

„Það eru allavega komnar fram mjög sterkar vísbendingar og mjög sterk merki þess að það sé vandamál í þessum skóla. Þau vandamál sem hafa helst verið til umfjöllunar snúa að ofbeldismálum eða menningu, en við erum að sjá líka að námsmatið kemur ekki nægilega vel út. Vandinn er greinilega nokkuð víðtækur og það þarf greinilega að setja sérstakan stuðning inn í skólann, það er alveg ljóst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert