Hópur til að skoða framtíðarútfærslu á svokölluðum Flóttamannavegi var stofnaður í mars, en þau þrjú sveitarfélög sem vegurinn liggur í gegnum hafa haft mismunandi sýn á legu og hlutverk vegarins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Árna Rúnars Þorvaldssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um veginn.
Í svarinu segir Eyjólfur að Vegagerðin sé veghaldari á þeim hluta Elliðavatnsvegar/Flóttamannavegar sem liggur frá Kaldársvegi að Vífilsstaðarvegi en Kaldárselsvegur sé í veghaldi Hafnarfjarðarbæjar og Vífilsstaðavegur í veghaldi Garðabæjar.
Eyjólfur segir að Elliðavatnsvegur sé því ekki hluti af samhangandi stofnvegakerfi þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu.
Árni Rúnar spurði ráðherrann hvort liggi fyrir ákvörðun um það að hálfu Vegagerðarinnar að hætt verði að skilgreina Elliðavatnsveg/Flóttamannaveg sem skilaveg. Árni spurði að ef svo er ekki standi það þá til að endurskoða stöðu hans sem skilavegar að hálfu Vegagerðarinnar.
„Í tengslum við breytingu á vegalögum árið 2007 féll Elliðavatnsvegur ekki lengur undir skilgreiningu á stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu. Ástand Elliðavatnsvegar frá Kaldárselsvegi að Vífilsstaðavegi var með þeim hætti að ekki var unnt að skila honum til sveitarfélaganna,“ segir í svari ráðherrans.
Hann segir að tillögu að þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 sem ekki var afgreidd á Alþingi hafi verið gert ráð fyrir fjármagni til endurbóta á Elliðavatnsvegi með það að markmiði að viðkomandi sveitarfélög gætu tekið við veghaldi Elliðavatnsvegar.
Eyjólfur segir í svarinu að á undanförnum árum hafi ekki legið fyrir sameiginleg sýn þeirra þriggja sveitarfélaga sem Elliðavatnsvegur tengir saman varðandi legu og hlutverk vegarins. Vegagerðin hafi hins vegar átt í samtali með Kópavogsbæ, Garðabæ og Hafnarfirði og á fundi í mars 2025 hafi verið stofnaður vinnuhópur þessara aðila sem hafi það hlutverk að skoða framtíðarútfærslu Elliðavatnsvegar og hvort og hvernig hann gæti talist hluti af stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins.
„Með aukinni umferð á höfuðborgarsvæðinu ásamt stækkun byggðar við Elliðavatnsveg í Hafnarfirði, Garðabæ og í efri byggðum Kópavogs hefur umferð um veginn aukist jafnt og þétt og í dag er ástand vegarins og umferðaröryggi ekki ásættanlegt,“ segir enn fremur í svari Eyjólfs Ármannssonar.
Hann segir að Vegagerðin hafi lagt áherslu á að sveitarfélögin sem vegurinn tengir saman séu sammála um hlutverk og útfærslur ef hann á að verða hluti af stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu.
Árni spurði ráðherrann enn fremur hvort liggi fyrir áætlanir að af hálfu Vegagerðarinnar um uppbyggingu ofanbyggðavegar þar sem nú liggur Elliðavatnsvegur/Flóttamannavegur.
Í svari ráðherrans kom fram að ekki liggi fyrir áætlanir um uppbyggingu vegarins að undanskildum athugunum á bættu umferðaröryggi við Urriðaholt með vegamótum og undirgöngum fyrir gangandi vegfarendur.
„Vegagerðin gerir ráð fyrir að frekari áætlanir verði gerðar í kjölfar niðurstöðu vinnuhóps Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna og að þær geti legið til grundvallar þegar kemur til endurskoðunar samgönguáætlunar sem gert er ráð fyrir að verði lögð fram á Alþingi haustið 2025,“ segir Eyjólfur.
Vegurinn er barn síns tíma og er bugðóttur og hæðóttur.
Mikil umferð er um veginn, sérstaklega í seinni tíð. Hann liggður að vinsælum útivistarsvæðum, svo sem Heiðmörk og golfvöllum, og byggð nálægt honum hefur stóraukist á undanförnum árum.
Veginn lagði bandaríska varnarliðið á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, 1942. Vegurinn, eða hlutar hans, hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina, svo sem Setuliðsvegur, Flóttamannaleið, Flóttavegur, Flóttamannavegur, Vatnsendavegur og Ofanbyggðavegur. Ekki mun hann þó hafa verið lagður svo herliðið gæti farið um hann á flótta.